Hauskúpan sem sást á auglýsingaskilti við Kringlumýrarbraut í morgun er hluti af auglýsingaherferð og kemur það í ljós klukkan 14 hver stendur á bak við hana.
Gefið var í skyn að tölvuhakkari hafi verið þarna að verki en Vésteinn Gauti Hauksson, framkvæmdastjóri Billboard sem starfrækir skiltið, segir aðra aðila þarna á bak við.
„Það er ógrynni af fólki búið að hringja hingað og senda skilaboð. Þetta er að svínvirka,“ segir Vésteinn Gauti.
Hann bætir við að hugmyndin með auglýsingunni í morgun hafi verið að vekja athygli hjá fólki á leiðinni í vinnuna og veita síðan frekari svör síðar um daginn.
Að sögn Vésteins Gauta birtist auglýsingin í morgun einnig á auglýsingaskilti við Hilton Reykjavík Nordica-hótelið og í níu mismunandi strætóskýlum.