Tímasetning framboðsins kom Bjarna á óvart

Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson.
Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Unnur Karen

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði að tímasetningin á framboðstilkynningu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, um­hverf­is- og orku- og lofts­lags­ráðherra, til formanns Sjálfstæðisflokksins hafi komið honum á óvart. 

Þetta kom fram í viðtali við Bjarna og Guðlaug á Fréttavaktinni.

„Ég er að vísa til þess að ef menn vilja gera breytingar á forystunni þá myndi ég kannski segja að almennt séð þá væri það ekkert óeðlilegt í aðdraganda kosninga að menn vildu segja „ég vil fá að leiða flokkinn inn í næstu kosningar og inn í framtíðina“,“ sagði Bjarni. 

Guðlaugur sagði að rökin fyrir því að þetta væri góð tímasetning væri vegna þess að einungis væru þrjú ár í kosningar. 

„Við þurfum að búa okkur undir hana,“ sagði hann og bætti við að í aðdraganda landsfundarins hafi Guðlaugur fundið fyrir áhyggjum af stöðu flokksins. 

Bjarni að flokkurinn væri ekki klofinn. „Ég held við værum ekki að ræða þetta nema útaf þessu framboði. Það hefði verið löngu fram komið ef Sjálfstæðisflokkurinn væri klofinn. Við getum sagt að það er deigla í Sjálfstæðisflokknum.

Ekki vantraustsyfirlýsing

Guðlaugur sagði að framboð hans snerist ekki um vantraust á Bjarna sem formanni heldur væri Sjálfstæðisflokkurinn lýðræðisflokkur þar sem keppst væri um sæti. „Þetta verður ekki fyrsta eða síðasta kosning sem fer fram á landsfundi.“  

Bjarni svaraði ekki hvort að ríkisstjórnin héldist óbreytt ef hann yrði formaður. „Ég get auðvitað ekkert fullyrt um það.“

Guðlaugur sagðist ekki óttast um sitt ráðherrasæti ef hann muni tapa kosningunum. „Ég er ekki að hugsa um annað en að vinna þessar kosningar á landsfundi.“

Er Bjarni var spurður hvort Guðlaugi yrði vikið úr embætti ef hann tapaði sagði Bjarni að spurt yrði að leiks lokum. „Ég trúi því að við getum tekist á um þetta með málefnalegum hætti og lagt á borðið fyrir landsfundarfulltrúa skýra valkosti.“

Mun ekki slettast upp á vinskapinn

Bjarni dró ekki til baka yfirlýsingu sína um að hann myndi hætta í stjórnmálum ef hann myndi tapa formannsslagnum. Guðlaugur sagði það ekki vera góða yfirlýsingu. 

Bjarni grínaðist með að kosningarbaráttan yrði óheiðarleg en sagði síðar ekki trúa öðru en að baráttan yrði Sjálfstæðisflokknum til sóma og muni fara vel fram. 

Spurðir hvort að það myndi slettast upp á vinskapinn eftir kosningarnar sagðist Guðlaugur ekki trúa að það muni gerast. „Það mun allavega ekki gerast af minni hálfu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert