Tíu stöður forstöðumanna felldar niður

Megináherslan í nýju stjórnskipulagi er að styrkja klíníska starfsemi spítalans.
Megináherslan í nýju stjórnskipulagi er að styrkja klíníska starfsemi spítalans. mbl.is/Jón Pétur

Tíu stöðugildi forstöðumanna Landspítala verða felld niður á sama tíma og framkvæmdastjórum fjölgar úr átta í ellefu samkvæmt nýju skipuriti spítalans. 

Þetta kemur fram í pistli Runólfs Pálssonar forstjóra þar sem hann segist sannfærður „um að sú einföldun á stjórnskipulagi sem nú er ráðist í leiði ekki aðeins til hagræðingar í rekstri heldur framar öllu til þess að styrkja og efla alla starfsemi Landspítala með megináherslu á klíníska þjónustu spítalans.“

Ný og breytt störf framkvæmdastjóra hvað umfang og ábyrgð varðar verða auglýst til umsóknar á næstunni, sjö störf framkvæmdastjóra klínískra eininga og tvö störf framkvæmdastjóra stoðsviða.

Runólfur kynnti heilbrigðisráðherra nýja skipuritið í morgun en það hefur verið í vinnslu síðastliðna mánuði. 

Megináherslan í nýju stjórnskipulagi er að styrkja klíníska starfsemi spítalans með því að færa aukið umboð og ákvörðunarvald nær framlínu þar sem þjónustan er veitt,“ segir í pistlinum. 

Þá verður sérstök áhersla lögð á hlutverk framkvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra lækninga sem leiðtoga stærstu stétta heilbrigðisstarfsmanna á spítalanum. 

Einnig verður sett á stofn sérstök skrifstofa undir stjórn framkvæmdastjóra þróunar sem er ætlað að sinna verkefnum tengdum nýjum Landspítala við Hringbraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert