Auglýsingaherferð TM vakti talsverða athygli í morgun þegar auglýsingaskilti við Kringlumýrarbraut birti, í stað hefðbundinna auglýsinga, skilaboð frá aðila sem virtist við fyrstu sýn hafa brotið sér leið inn í tölvukerfi skiltisins.
„Tilgangurinn er sá að við erum að vekja athygli á netöryggistryggingu sem við erum með,“ segir Halldór Gunnlaugsson, sérfræðingur í markaðsmálum hjá TM.
Að sögn Halldórs eru mörg dæmi um slíkar árásir á fyrirtæki. Sum fyrirtækin hafa lent í rekstrarstöðvun og viðkvæm gögn hafa verið tekin traustataki eða skrám læst.
„Mörg fyrirtæki hafa farið svolítið illa út úr slíkum árásum sem og reksturinn almennt hjá þeim. Þannig að þessi trygging er ætluð til að tryggja fyrirtæki gagnvart slíkum árásum.“
Halldór segir að ýmis viðskipti fari fram með rafrænum hætti og að viðkvæm gögn sem varða fyrirtæki og viðskiptavini þess séu sömuleiðis varðveitt með rafrænum hætti. „Þetta er ekki eins og í verslunum sem hafa þjófavörnina við hurðina. Þessi trygging er þannig kærkomin og TM er eina fyrirtækið sem býður upp á þessa tryggingu.“