Staða aðstoðarritstjóra DV hefur verið lögð niður og var Erlu Hlynsdóttur, sem áður gegndi því starfi, sagt upp í gær. Jón Þórisson, framkvæmdastjóri Torgs, staðfesti þetta í samtali við mbl.is. Vísir greindi fyrst frá.
Að sögn Jóns er um skipulagsbreytingu að ræða og verður því enginn ráðinn inn í stað Erlu.
„Því miður þá þurfti að koma til þess. Við vorum að laga til skipulag og það starf er ekki lengur til,“ segir Jón.
Þá var blaðamanni, sem hafði nýlega verið ráðinn á Fréttablaðið, einnig sagt upp.
„Það er bara eins og gangurinn er. Þetta er hundrað manna vinnustaður og það eru alltaf einhverjar breytingar.“
Í frétt Mannlífs kemur fram að Aðalheiði Ámundadóttur og Elínu Hirst hafi einnig verið sagt upp í gær en Jón segir það ekki rétt.
Spurður hvort frekari skipulagsbreytingar séu í vændum, segir Jón ekkert slíkt standa til að svo komnu máli. Björn Þorfinnsson verði áfram ritstjóri DV og Ágúst Borgþór Sverrisson áfram fréttastjóri.