Athafnamaðurinn Skúli Gunnar Sigfússon, sem jafnan hefur verið kenndur við Subway, taldi lögfræðikostnað sinn, og félaga í sinni eigu, yfir fjögurra ára tímabil vegna málaferla sem tengdust þrotabúi EK1923, vera „úr öllu hófi.“ Fór hann með málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og fór m.a. fram á að lögmannsþóknunin yrði lækkuð að lágmarki um 50%, en samtals var rukkað fyrir 3.446 klukkustunda lögfræðivinnu og nemur kostnaðurinn tugum milljóna.
Baksaga málsins er gjaldþrot félagsins EK1923, sem áður hét Eggert Kristjánsson hf. Var EK1923 í eigu Skúla, en við gjaldþrotið hóf skiptastjórinn Sveinn Andri Sveinsson málaferli, m.a. gegn Skúla, í þremur aðskildum málum. Stærsta málið snerist um fasteignina Skútuvog 3, en að endingu hafði þrotabúið betur gegn Skúla í öllum málunum, þar sem tvö fóru til Landsréttar en eitt alla leið fyrir Hæstarétt. Hefur Skúli sjálfur metið tap sitt og félaga sinna vegna þessara mála á 715 milljónir í öðrum málaferlum sem hann höfðaði gegn KPMG og Logos vegna ráðgjafar í tengslum við kaupin.
Lögmaður Skúla og félaga hans þriggja; Leitis eignarhaldsfélags, Sjöstjörnunnar og Stjörnunnar, sem áttu hlut að máli í fyrrnefndum málaferlum, var lögmaðurinn Heiðar Ásberg Atlason sem starfar hjá Logos lögmannsstofu. Gætti hann hagsmuna Skúla og félaganna frá því í desember 2016 til ársloka 2020, eða í rúmlega fjögur ár. Í úrskurði nefndarinnar kemur hins vegar fram að auk Heiðars hafi fleiri starfsmenn stofunnar komið að vinnu fyrir Skúla og var sú vinna reikningsfærð á tímaskýrslum.
Reikningar vegna vinnu Heiðars og annarra starfsmanna Logos var gefinn út mánaðarlega og voru gefnir út á eitthvert af félögunum þremur samkvæmt fyrirmælum Skúla og er óumdeilt að allir reikningarnir voru greiddir. Hins vegar er deilt um hvort að vinnuskýrslur hafi fylgt með öllum útgefnum reikningum, en Heiðar mótmæli því í greinargerð sinni og sagði ítarlegar vinnuskýrslur hafa fylgt hverjum reikningi.
Þá er tekið fram að ágreiningslaust sé að Skúli hafi fengið umfangsmikla lögmannsþjónustu á þessu fjögurra ára tímabili og vísar Heiðar meðal annars til þess að Skúli hafi verið í nánast daglegum samskiptum við sig stóran hluta af tímabilinu. Þá hafi heldur ekki öll samskipti þeirra verið reikningsfærð.
Fram kemur að útseldir tímar Heiðars og annarra lögmanna á Logos vegna vinnu fyrir Skúla og félögin hafi numið 3.446 klukkustundum á þessum fjórum árum. Til að setja það í samhengi jafngildir það 431 átta stunda vinnudegi, eða tæplega tveimur árum af fullri átta stunda vinnu þegar tillit er tekið til sumarfría og helgidaga. Rétt er að taka fram að í úrskurðinum kemur fram að Heiðar hafi fellt niður 273 klukkustundir af vinnu, en ekki er hægt að lesa út úr gögnum hvort það sé fyrir eða eftir að 3.446 tíma talan er fengin út.
Í úrskurðinum er ekki upplýst um heildarupphæð reikninganna sem deilt er um, en hins vegar kemur fram að fyrir síðustu reikningana hafi Heiðar rukkað 36.600 krónur á vinnustund fyrir eigin vinnu og 24.600 krónur fyrir vinnustund fulltrúa á lögmannsstofunni, en ofan á það bætist virðisaukaskattur. Til frádráttar við það veitti hann 5% afslátt af öllum reikningum til Skúla og félaganna til ársins 2019 og eftir það 10% afslátt.
Hafi þetta verið tímagjaldið öll fjögur árin má reikna sig niður á að heildarreikningur Skúla og félaganna fjögurra hafi verið á bilinu 80-100 milljónir án virðisaukaskatts yfir tímabilið, en upphæðin ræðst af því hversu hátt hlutfall vinnunnar var unnin af Heiðari og hversu hátt hlutfall af öðrum fulltrúum (í þessu dæmi frá 30% upp í 70%). Til samanburðar var greint frá því fyrir sjö árum að meðalverð lögfræðiþjónustu hér á landi væri 19.500 krónur á tímann, en fyrir þennan fjölda vinnustunda væri heildarupphæðin án virðisaukaskatts samtals um 67 milljónir á því verði.
Í kröfu sinnar til nefndarinnar krefst Skúli þess að endurgjaldið verði lækkað verulega. Byggir hann á að „fjárhæð endurgjaldsins sé úr öllu hófi og í engu samræmi við þá vinnu sem eðlilegt hefði verið að inna af hendi vegna þeirra mála sem hagsmunagæslan hafi tekið til.“
Vildi Skúli að litið yrði til dæmds málskostnaðar í málunum þremur til að fá hugmynd um hvert endurgjald gæti verið. Þannig gæfi dæmdur málskostnaður gagnaðila hans í málinu, þ.e. skiptastjórans, betri mynd af því hvað eðlilegt gjald til lögmannsins væri. Sagði hann að munur á útlagðri vinnu milli málsaðila sé „yfirgengilegur“ og vísar hann til þess að rukkun eigin lögmanns hafi verið tólfföld miðað við þá upphæð sem skiptastjórinn fékk dæmdar í málskostnað.
Þá vísar Skúli til þess að samtals 23 starfsmenn á lögmannsstofunni hafi komið að málum sem tengdust sér og að það hafi falið í sér tilheyrandi óhagræði þar sem hver og einn nýr starfsmaður hafi þurft að kynna sér gögnin upp á nýtt. Sagði hann þetta gert án samráðs við sig, en Heiðar mótmælti því reyndar og sagði samstarfsfólk sitt oft hafa verið með á fundum þegar rætt var við Skúla og upplýsingar um þetta hefðu komið fram á tímaskýrslum.
Einnig bendir Skúli á að hann og félög hans hafi á sama tíma staðið í öðrum málarekstri sem aðrir lögmenn hafi annast. Þar hafi mál verið rekið á fjórum dómstigum, en endurgjald vegna starfa lögmanna verið miklu lægra en sú þóknun sem Heiðar og Logos rukkuðu.
Taldi Skúli að í ljósi alls þessa væri eðlilegt að lækka þóknunina um 50% að lágmarki, en í greinargerð sinni tekur hann fram að þrátt fyrir það yrði kostnaður hans enn töluvert hærri en dæmdur málskostnaður hafi verið í dómsmálunum þremur.
Í greinargerð sinni bendir Heiðar á að „verulega villandi“ sé að setja heildarupphæðina fram eins og Skúli gerir í málinu, því auk vinnunnar feli þetta í sér útlagðan kostnað. Þá sé upphæðin heildarupphæð fyrir alhliða lögfræðiþjónustu á margra ára tímabili og að málin hafi mörg verið mjög tímafrek. Sagði hann nákvæmar tímaskýrslur hafa fylgt hverjum reikningi sem Skúli hafi borgað samviskusamlega í gegnum árin og að hann væri að leggja fram kvörtun tæplega ári eftir að síðasti reikningur barst. Hann hafi því greitt alla reikninga hingað til án athugasemda.
Í lögum sem ná til starfa nefndarinnar segir að kvarta þurfi til nefndarinnar innan árs frá fyrsta reikningi, en Skúli mótmælti því og sagði að hann væri að kvarta yfir heildarþóknun og að hún hefði ekki legið fyrir fyrr en málið var að fullu útkljáð. Eftir lok málsins hafi einnig átt sér stað uppgjörsreikningar og Heiðar hafi fellt niður hluta unninna tíma og þannig hafi í raun ekki heildarkostnaður komið fram fyrr en í lokin. Þá hefði verið óviðeigandi að gera athugasemdir við reikninga meðan að málið væri í gangi fyrir dómstólum og stofna þannig málarekstri í hættu.
Niðurstaða nefndarinnar varðandi stærstan hluta krafna Skúla var að vísa þeim frá, en það var gert á þeim grundvelli að hann hafi ekki gert athugasemdir innan árs frá því að reikningarnir voru gefnir út. Tveir reikningar hafi hins vegar verið gefnir út innan tímamarkanna og voru þeir teknir til efnislegrar meðferðar.
Var þar meðal annars um að ræða 17,75 klst. reikning vegna vinnu við endurupptökubeiðni málsins. Skrifuðust 8 klst. á Heiðar á fyrrnefndar 36.600 kr á klst og 9,75 klst á fulltrúa á lögmannsstofunnar á 24.600 kr á klst (án vsk og án afsláttar). Segir í úrskurðinum að Heiðar hafi m.a. sótt þrjá fundi vegna málsins auk þess sem endurupptökubeiðninni hafi verið sinnt.
„Að mati nefndarinnar verður ekki séð að tímafjöldi sem tilgreindur reikningur F slf. [Logos] nr. BSR205144 á hendur sóknaraðila C ehf.[eitt félaga Skúla] tók til hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við þá vinnu sem innt var af hendi í mánuðinum og tímaskýrsla að baki honum tók til,“ segir í úrskurðinum. Bætt er við að ekki verði talið að áskilið tímagjald sé úr hófi, en það sé í samræmi við gjaldskrá Logos og þá framkvæmd sem gilt hafði um réttarsamband þeirra árin fjögur þar á undan. Þá kemst nefndin að sömu niðurstöðu um seinni reikninginn og metur hann ekki úr hófi.
Þetta er ekki fyrsta málið sem Skúli fer með fyrir úrskurðarnefndina, en hann kvartaði til nefndarinnar yfir háttsemi skiptastjórans Sveins Andra. Sendi hann kvörtunina fyrir hönd félaga sinna tveggja, Sjöstjörnunnar og Stjörnunnar, sem voru einnig meðal málsaðila í málinu hér að ofan.
Var niðurstaða nefndarinnar þá að sú háttsemi Sveins Andra að svara ekki ítrekuðum póstum frá Heiðari, sem var lögmaður félaganna tveggja, í aðdraganda þess að lokaskiptafundur var haldinn, væri andstæð siðareglum lögmanna. Nefndin hafnaði því hins vegar að Sveinn Andri hefði vanrækt skyldur sínar við boðun fundarins eða að ákveðnir kröfuhafar hefðu fengið nákvæmari upplýsingar en aðrir um fundinn. Þá hefur Skúli jafnframt fengið dómskvaddan matsmann til að meta hvort skiptakostnaður við þrotabú EK1923 hafi verið eðlilegur, en samtals var kostnaður við skipti félagsins 198 milljónir og var þóknun til skiptastjóra samtals upp á 167 milljónir.