„Hrikalegt að horfa á lögregluna meðhöndla hann“

Lögreglan kemur Hussein fyrir inn í bíl.
Lögreglan kemur Hussein fyrir inn í bíl. Ljósmynd/Aðsend

„Þarna er toppinum náð held ég, þetta er eiginlega bara með því viðbjóðslegasta sem ég hef séð. Það er allt rangt við þetta.“

Þetta segir Sema Erla Serdar, stjórnmála- og Evrópufræðingur og formaður Sol­ar­is, um brottflutning fjölskyldu frá Írak fyrr í dag. Fjölskyldan er nú stödd á Keflavíkurflugvelli og stendur til að vísa þeim úr landi og verða þau að öllum líkindum flutt til Grikklands með flugvél í nótt.

Að sögn Semu fór lögreglan án fyrirvara inn á heimili fjölskyldunnar í dag og tilkynnti þeim að þeim yrði vísað úr landi. Hún segir að einn meðlimur fjölskyldunnar hafi verið handtekinn og settur í gæsluvarðhald á meðan hinir fjölskyldumeðlimirnir var haldið á heimilinu.

Segir Hussein hafa fengið slæma meðhöndlun

„Við fáum fregnir af þessu og brunum þarna upp eftir en þegar ég mæti þá er fjölskyldan farin og lögreglan hefur komið þeim í felur í millitíðinni. Við rúntuðum þá um Hafnarfjörðin þangað til við fundum þau í lögreglufylgd. Þá horfum við upp á það þegar að fólkinu er komið fyrir í bíl. Þetta er náttúrulega skelfileg meðferð sem að maður horfir þarna upp á. Þegar mest er eru þarna sjö lögreglubílar og örugglega 20 lögregluþjónar sem eru í þessari aðgerð.“

Hún segir þá frá því hvernig fjölskyldan var flutt út af hótelinu þar sem að lögreglan hafði komið þeim fyrir og upp í bíl. Segir hún verst að hafa séð hvernig Hussein var fluttur. Hann er meðlimur fjölskyldunnar sem notast við hjólastól.

„Það var hrikalegt að horfa á lögregluna meðhöndla hann þarna og reyna að troða honum inn í bíl.“

Ómannúðleg vinnubrögð

Sema segir að bíllinn hafi síðan flutt fjölskylduna upp á Keflavíkurflugvöll. Þar bíður fjölskyldan núna eftir því að vera komið um borð í flugvél sem mun fara með þau til Grikklands. 

„Móðirin er orðin mjög veik og þeim er neitað um að hitta lækni. Þau eru búin að biðja um það en það hefur ekki verið orðið við þeirri beiðni,“ segir Sema.

Hún segist ekki skilja hvernig fólk getur tekið þátt í svona framkvæmdum og sakar lögregluna um ómannúðleg vinnubrögð.

„Þetta eru vinnubrögð sem eiga ekki að sjást. Ég samþykki ekki að fólk sé bara að vinna vinnuna sína, þetta er engum sæmandi. Allt við það sem gerðist við þessa fjölskyldu í dag var rangt frá upphafi til enda og ég neita að kvitta undir það að þetta hafi verið eftir einhvers konar verkferlum,“ segir hún og bætir við að mikilvægt sé að breyta verkferlunum ef þeir eru í raun svona.

Á að skemma dómsmálið

Að mati Semu er það ekki tilviljun að fjölskyldan er flutt á brott núna nokkrum dögum áður en að aðalmeðferð í máli fjölskyldunnar gegn íslenska ríkinu fer fram en hún á að fara fram 18. nóvember.

Að sögn Semu var þeim neitað um vernd hér á landi vegna þess að þau eru nú þegar með vernd í Grikklandi. Fjölskyldan stefndi þá íslenska ríkinu á þeim grundvelli að þeirra mati var ekki tekið tillit til sérstakra aðstæðna Hussein sem notast við hjólastól. 

„Hann er einstaklingur í mjög viðkvæmri stöðu. Hann á til dæmis ekki hjólastól. Það tekur engin heilbrigðisþjónusta við honum þarna úti og við vitum ekkert hvort eða hvernig tæki hann fær þar.“

Hún segir því brottvísunina vera til að skemma dómsmálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert