Íhuga að fara með skerðingarmál til MDE

Grái herinn, baráttuhópur eldra fólks um lífeyrismál, íhugar að fara …
Grái herinn, baráttuhópur eldra fólks um lífeyrismál, íhugar að fara með mál sitt fyrir MDE. Varðaði það skerðingar í almannatryggingakerfinu og hvort þær standist stjórnarskrá. Ljósmynd/Berglind Ýr Jónasdóttir

Grái herinn, baráttuhópur eldra fólks um lífeyrismál, íhugar að fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, eftir að Hæstiréttur staðfesti sýknudóm héraðsdóms.

Málið varðaði skerðingar í almannatryggingakerfinu og hvort þær standist stjórnarskrá.

Þetta staðfestir Ingibjörg Sverrisdóttir, félagi í Gráa hernum og formaður Félags eldri borgara í Reykjavík.

„Horfir ekki vel við mér“

„Auðvitað horfir þetta ekki vel við mér,“ segir Ingibjörg, spurð hvernig niðurstaðan horfi við henni.

„Við byrjuðum árið 2018. Þá var hugurinn að ef dómstólar hér myndu hafna því sem við erum að berjast fyrir, myndum við hugleiða að fara með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu,“ segir Ingibjörg, sem fundar ásamt öðrum fulltrúum Gráa hersins og lögmönnum félagsins á morgun.

Stéttarfélög styðja við bak félagsins sem stólar einnig á frjáls framlög frá einstaklingum og fyrirtækjum.

„Síðan verður þessi dómur svo sannarlega til skoðunar hjá verkalýðsfélögunum. Þau sömdu um þetta á sínum tíma fyrir okkar hönd,“ segir hún. Það skjóti skökku við að ákvörðun um að borga í lífeyrissjóð á fyrri árum leiði til skerðinga í seinni tíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert