Það er mat skóla- og frístundasviðs að leikskólar Reykjavíkurborgar hafi á árinu 2021 verið yfirmannaðir um eitt til tvö stöðugildi á leikskóla.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg þar sem segir jafnframt að yfirmönnun hafi verið vegna hólfunar og aðgerða í leikskólum vegna kórónuveirufaraldursins í upphafi árs og eru vísbendingar um að ennþá sé eitthvað um yfirmönnun sé tekið mið af rekstrar- og mönnunarlíkani leikskóla.
Einar Þorsteinsson, forseti borgarstjórnar, útilokaði ekki í viðtali við mbl.is í gær að farið yrði í uppsagnir en sagði þó að almenna reglan væri að nýta starfsmannaveltu til að vega og meta hvert starf sem losnar.
Í greinargerð fagsviða og B-hluta fyrirtækja með fjárhagsáætlun borgarinnar 2023, sem birtist í gær, kom fram að gert væri ráð fyrir að starfsfólki leikskóla fækkaði úr 1.775 á þessu ári í 1.700.
Í tilkynningu borgarinnar segir að vegna væntanlegrar fjölgunar barna á leikskólum og fjölgunar leikskólaplássa muni áætlun ársins 2023 taka breytingum.
„Sem stendur byggist áætlunin á fjölda barna í leikskólum borgarinnar í byrjun september 2022. Allar viðbætur, svo sem fjölgun starfsmanna og breytingar á barnafjölda, bætast við grunnáætlun þegar þær raungerast, t.d. þegar nýr leikskóli opnar. Leikskólar Reykjavíkur eru mannaðir í samræmi við þarfir sem taka mið af aldri barna og enginn afsláttur er gefinn af þjónustu sem snýr að umönnun þeirra. “
Alls eru 68 leikskólar reknir af Reykjavíkurborg. Vinna við útfærslu á nýju reiknilíkani fyrir leikskóla er á lokametrunum og í yfirferð hjá skóla- og frístundasviði og fjármála- og áhættustýringu. Búist er við að líkanið verði tekið til umfjöllunar hjá borgarráði strax í janúar 2023.
Í október lagði fulltrúi Flokks fólksins til í borgarráði að fólk yfir sjötugu yrði ráðið til starfa í leikskólum til þess að leysa mönnunarvanda sem væri til staðar. Í bókun Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar kom fram að 83 stöðugildi vantaði í október.