Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm héraðsdóms í þremur málum þriggja félaga úr Gráa hernum, baráttuhópi eldra fólks um lífeyrismál, vegna skerðinga í almannatryggingakerfinu.
Var í málinu látið reyna á það hvort skerðingar í almannatryggingakerfinu standist stjórnarskrá, meðal annars eignaréttarákvæði hennar. Gjafsóknarkostnaður í máli allra þriggja greiðist úr ríkissjóði, auk þóknunar lögmanna þeirra.
Héraðsdómur sýknaði ríkið af kröfum félaganna í desember 2021.
Málshöfðunin var reist á því sjónarmiði að með skerðingu opinberra lífeyrisgreiðslna í hlutfalli við réttindi, sem ellilífeyristakar hafa áunnið sér í lífeyrissjóðum með vinnuframlagi sínu og iðgjöldum, sé gengið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti lífeyristaka. Taldi Grái herinn að skerðingin nemi allt að 56,9% af greiðslum úr lífeyrissjóði.
Taldi Hæstiréttur í máli eins þeirra að skerðingarnar hafi hvílt á málefnalegum sjónarmiðum, séu almennar og geri ekki slíkan greinarmun á einstaklingum að þær feli í sér ólögmæta mismunun, andstætt fyrirmælum 62. gr. stjórnarskrárinnar.
Þá var ekki talið að Grái herinn hafi sýnt fram á að með fyrirmælum laga um lífeyrisréttindi hans sem njóta verndar eignaréttarákvæðisins hafi verið skert eða takmörkuð auk þess sem lög frá 2016 um almannatryggingar og lög frá 2017 um almannatryggingar hafi í engu tilliti breytt greiðslum einstaklinganna úr lífeyrissjóðum samkvæmt réttindum sem hann hefði áunnið sér á grundvelli iðgjalda.
Fréttin hefur verið uppfærð.