Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema hefur komist að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands fari ekki rétt að við útreikninga á árlegu skrásetningargjaldi nemenda við skólann.
Þetta kemur fram í úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Með honum er fyrri úrskurður háskólaráðs, frá 7. október 2021, um að hafna beiðni kæranda um endurgreiðslu skrásetningargjalds, felldur úr gildi.
Í nýja úrskurðinum segir að háskólaráð hafi miðað við sex ára gamlar upplýsingar, þ.e. fjárhæðir kostnaðarliða við raunútgjöld ársins 2015, við ákvörðun á skrásetningargjaldi fyrir skólaárið 2021-2022.
Með því hafi ráðið ekki sinnt þeim skyldum sem hvíla á því samkvæmt skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýslulaga.
Tekið er sem dæmi að skráðir nemendur við skólann hafi verið töluvert fleiri í fyrra en árið 2015, sem hljóti að hafa áhrif á útreikning skrásetningargjalds á hvern og einn nemanda.
Í tilkynningu frá stúdentaráði er bent á að skrásetningargjald í opinbera háskóla séu þjónustugjöld en þau má aðeins innheimta fyrir þá þjónustu sem hið opinbera raunverulega veitir þeim sem greiðir gjaldið. Það skuli gert á grundvelli skýrrar lagaheimildar.
Háskólaráði hafi borið skylda til að afla nákvæmra upplýsinga um þá útreikninga sem eiga að liggja að baki þeim kostnaðarliðum sem skrásetningargjaldi skólans er ætlað að standa undir.
Stúdentaráð kveðst fagna því að áfrýjunarnefndin haldi háskólanum við efnið og tekur fram að ráðið telji niðurstöðuna tilefni til stærra samtals um skrásetningargjöldin og réttmæti þeirra.
„Háskóli Íslands á ekki að þurfa að teygja sig í vasa stúdenta til viðbótar við fjárframlög ríkisins. Það er á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að opinber háskólamenntun sé fjármögnuð með fullnægjandi hætti. Stúdentaráð væntir þess að Háskóli Íslands endurskoði afstöðu sína gagnvart gjaldinu með tilliti til þessarar niðurstöðu, með það að markmiði að lækka það eða afnema, líkt og stúdentar hafa löngum talað fyrir.“