Einn þeirra hælisleitenda, sem vísað var frá landi í nótt, lýsir því hvernig lögregla hafi slegið bróður hennar er hann reyndi að verja bróður þeirra sem er í hjólastól í viðtali við Kjarnann.
Yismen Hussien var flutt ásamt 14 öðrum einstaklingum frá Íslandi til Grikklands í nótt en hún hafði dvalið hér í um tvö ár, ásamt móður sinni, systur og tveimur bræðrum.
Í viðtalinu lýsti Yismen því hvernig lögreglan hafi beðið eftir henni og systur hennar á heimili þeirra eru þær komu heim úr skólanum í gær.
Hún sagði lögregluna hafa tekið á bróður hennar sem hafi setið í hjólastólnum. Eldri bróðir hennar hafi þá reynt að verja hann en þá hafi lögreglan slegið hann. „Þeim var ýtt og hent niður,“ lýsti hún. Þeir hafi síðan báðir verið handteknir og fluttir á lögreglustöð. Símarnir hafi verið teknir af þeim öllum.
Mæðgurnar voru fluttar á hótel í Reykjanesbæ, þar sem lögreglumenn vöktuðu þær, og þaðan út á Keflavíkurflugvöll í nótt. Yismen sagði að þær hafi ekki getað tekið neitt með sér úr íbúðinni þeirra.
Þá hafi þær verið leiddar inn í flugvélina í hópum, þar sem hún sá loks bróður sinn. Þau voru síðan öll fjötruð á höndum.
„Okkur líður öllum hræðilega illa. Þetta var versta nótt lífs míns, eins og martröð,“ sagði Yismen.