Vill leikskólastarfsfólk í Reykjavík til Kópavogs

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri vekur athygli á málinu á Facebook.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri vekur athygli á málinu á Facebook. Samsett mynd

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, hvetur starfsfólk á leikskólum Reykjavíkurborgar til að kynna sér störf sem eru í boði í Kópavogi, í ljósi nýjustu frétta af því að leikskólar borgarinnar séu yfirmannaðir.

Ásdís vekur athygli á málinu á Facebook-síðu sinni og segir að skortur á starfsfólki, bæði faglærðu og ófaglærðu, sé megin ástæða þess að börn komist ekki fyrr inn á leikskóla bæjarins.

„Nú skyndilega virðist slíkur vandi ekki vera til staðar í Reykjavík heldur þveröfugt, leikskólar borgarinnar eru ofmannaðir! Biðlistarnir í Reykjavík eru samt enn langir,“ segir Ásdís í færslunni og hvetur svo starfsfólk í Reykjavík til að kynna sér laus störf hjá Kópavogsbæ.

Vísbendingar um yfirmönnun í dag

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg í gær kom fram að það væri mat skóla- og frístundasviðs að leikskólar borgarinnar hafi á árinu 2021 verið yfirmannaðir um eitt til tvö stöðugildi. Yfirmönnun hafi verið vegna hólfunar og aðgerða í leikskólum vegna kórónuveirufaraldursins, en vísbendingar væru um að ennþá væri eitthvað um yfirmönnun, væri tekið mið af rekstrar- og mönnunarlíkani leikskóla.

Í greinargerð með fjárhagsáætlun borgarinnar kemur fram að gert sé ráð fyrir því að starfsfólki á leikskólum borgarinnar fækki á þessu ári úr 1.775 í 1.700. í tilkynningu borgarinnar var þó tekið fram að vegna væntanlegrar fjölgunar barna og fjölgunar leikskólaplássa muni áætlun ársins 2023 taka breytingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert