Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, flytur setningarræðu á 44. landsfundi flokksins sem fer fram í Laugardalshöll. Hægt er að fylgjast með ræðunni hér í beinni útsendingu á mbl.is.
Ræðan hefst kl. 16:30.
Landsfundur fer með æðsta vald í málefnum flokksins og þar er stefna hans mótuð. Seturétt á landsfund eiga flokksráðsfulltrúar flokksins auk þess sem félög og fulltrúaráð kjósa fulltrúa til setu á fundinum.
Sem kunnugt er, þá hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, boðið sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins gegn Bjarna sem hefur verið formaður í 13 ár.
Bjarni hefur þrisvar áður hlotið mótframboð sem sitjandi formaður, en í öll skiptin var flokkurinn í stjórnarandstöðu. Fyrst árið 2010 þegar Pétur Blöndal bauð sig fram gegn honum á landsfundi, svo árið 2011 á móti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og loks árið 2013 þegar Halldór Gunnarsson í Holti bauð sig fram gegn honum.
Kosningin fer fram á sunnudaginn.