Hæstbjóðandi stóð ekki í skilum

Haukahlíð. Til stóð að þar risi stærsta hótel á Íslandi. …
Haukahlíð. Til stóð að þar risi stærsta hótel á Íslandi. Í staðinn verða byggð fjölbýlishús með hundruðum íbúða. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarráð hefur samþykkt að selja nýstofnuðu félagi, D2001 ehf., lóðina Haukahlíð 4 og byggingarrétt á henni. Kaupverðið er 1.855 milljónir króna. Lóðin er Valssvæðinu við Hlíðarenda, nálægt flugvellinum og skammt frá Hringbraut.

Upphaflega átti að rísa þarna atvinnuhúsnæði, m.a. stærsta hótel landsins í herbergjum talið (450 herbergi), en síðar var landnotkuninni breytt í íbúðasvæði. Á þeim tíma var ekki talin þörf á enn einu risahótelinu í höfuðborginni.

Í sumar auglýsti Reykjavíkurborg til sölu byggingarrétt á lóðinni Haukahlíð 4. Tilboð voru opnuð 8. ágúst. Þrjú tilboð bárust. Skientia ehf. bauð krónur 2.675.000.000, D2001 ehf. krónur 1.855.000.000 og Framkvæmdarfélagið Arnarhvoll ehf. krónur 1.789.480.000.

Borgarráð samþykkti í framhaldinu að selja Skientia, Traðarlandi 14 Reykjavík, byggingarréttinn á tilboðsverðinu. Á fundi borgarráðs 27. október sl. var samþykkt að fella niður lóðarúthlutun til Skientia ásamt byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði í Haukahlíð 4 þar sem ekki hefði verið greitt fyrir lóðina innan tiltekins frests, sem var 45 dagar.

Á sama fundi borgarráðs var samþykkt að selja næstbjóðanda, D2001, Ögurhvarfi 6 Kópavogi, lóðina Haukahlíð 4 og byggingarrétt fyrir tilboðsupphæðina. Auk greiðslu fyrir byggingarrétt greiðast krónur 280.712.700 í gatnagerðargjöld. Umrædd fjölbýlishúsalóð er 6.454 fermetrar að stærð og þar verður heimilt að reisa 19.100 fermetra byggingu. Á lóðinni Haukahlíð 4 gætu risið hátt í tvö hundruð íbúðir.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 3. nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka