Íslandsdeild Amnesty International hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún fordæmir brottvísanir íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem þegar hafa fengið stöðu sína viðurkennda í Grikklandi.
„Deildin harmar hina ómannúðlegu og vanvirðandi meðferð stjórnvalda gagnvart þessum viðkvæma hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd sem sviptur var frelsi sínu og þvingaður úr landi aðfaranótt 3. nóvember sl.,“ segir í yfirlýsingunni.
Meint harka lögreglu í garð 15 hælisleitenda sem sendir voru úr landi hefur verið mikið gagnrýnd, ekki síst vegna meðferðar á Hussein Hussein, sem notast við hjólastól.
Deildin hvetur stjórnvöld til að endurskoða stefnu sína um að taka ekki til efnislegrar meðferðar mál einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi.
„Það er mikið áhyggjuefni að íslensk stjórnvöld taka ítrekað umsóknir um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar og senda þess í stað umsækjendur aftur til fyrsta viðtökuríkis innan Schengen, sérstaklega Grikklands. Aðbúnaður flóttafólks í Grikklandi hefur verið gagnrýndur af m.a. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Amnesty International.“
Fjölmargar heimildir gefi til kynna að raunverulegar aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu óviðunandi.
Í yfirlýsingunni er bent á nýlega úrskurði kærunefndar útlendingamála þar sem fram kemur að einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifi oft á jaðri samfélagsins og búi í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Þá njóti þeir að formi til ýmissa réttinda sem ekki séu í öllum tilvikum virk, meðal annars vegna álags á innviði í ríkinu.
„Í ljósi fréttaflutnings af brottvísun fatlaðs einstaklings sem glímir við alvarleg veikindi og notast við hjólastól bendir Íslandsdeild Amnesty International á þá alþjóðlegu mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að, m.a. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Mannréttindasáttmála Evrópu.
Samkvæmt framangreindum samningum skulu aðildarríki þeirra gera allar ráðstafanir til að vernda fólk, þar á meðal fatlaða einstaklinga, fyrir pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.“