Hussein án húsnæðis og matar í Grikklandi

Myndin er birt með leyfi Hussein Hussein.
Myndin er birt með leyfi Hussein Hussein. Samsett mynd

Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, segir að hluti þeirra hælisleitenda sem voru fluttir af landi brott síðastliðinn fimmtudag séu nú heimilislausir og án matar. Þá gangi stúlkur þær, sem voru í námi við FÁ, ekki í skóla í Aþenu.

Sema segist reyna að halda sambandi við sem flesta en að það sé erfitt þar sem margir þeirra hafi ekki tök á því að hlaða farsímana sína.

Segir að aðgerðirnar hafi verið „mannlegur fraktflutningur“

Tíu samtök, meðal annars Solaris, standa að mótmælum á Austurvelli kl 14 á morgun þar sem aðgerðum ríkisstjórnarinnar síðastliðinn fimmtudag verður mótmælt undir yfirskriftinni „Ekki í okkar nafni“.

Sema gerir ráð fyrir góðri mætingu á morgun.

„Ég geri ráð fyrir því að fullt af fólki muni koma saman áfram til að sýna samstöðu með því fólki sem var flutt með mannlegum fraktflutningi stjórnvalda í vikunni og senda skýr skilaboð um að framferði eins og þetta verði ekki liðið,“ segir Sema í samtali við mbl.is.

Hún kveðst finna fyrir samhug meðal Íslendinga og segir þeim ekki standa á sama um þetta.

„Við erum sem samfélag upp til hópa svekkt, við þurfum líka að vera reið og sýna reiði okkar. Það er tækifæri til þess á morgun. Þetta er ástand sem við höfum horft á stigmagnast.“

Sema Erla Serdar er stjórnmála- og Evrópufræðingur
Sema Erla Serdar er stjórnmála- og Evrópufræðingur Ljósmynd/ Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

Vonast til þess að Íslendingar venjist ekki viðlíka aðgerðum

Sema hefur áhyggjur af því að atvik á borð við aðgerðir lögreglu á fimmtudag verði reglulegir viðburðir sem festi sig í sessi og þannig venjist almenningur þeim.

Sema hefur verið í sérstöku sambandi við Hussein Hussein, sem er fatlaður og bundinn við hjólastól. Hún segir hann ekki hafa fengið nokkurn mat í þrjá daga og að hann búi á götunni. Þá segir Sema þær stúlkur sem stunduðu nám í FÁ ekki fá neina menntun úti í Grikklandi.

Sema segir íslensk yfirvöld hafa sent hælisleitendurnar til Grikklands vitandi af því að aðstæður þeirra yrðu svona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert