„Þetta eru einar erfiðustu aðgerðir lögreglu og taka á alla máls aðila. Ekki síst starfsfólk lögreglu, sem og – þá sérstaklega líka – aðilana sjálfa,“ sagði Helgi Valberg Jensson, yfirlögfræðingur hjá Ríkislögreglustjóra, í kvöldfréttum Rúv um aðgerðir Ríkislögreglustjóra aðfaranótt fimmtudags er 15 hælisleitendur voru sendir frá Íslandi til Grikklands.
Helgi sagðist skilja þá gagnrýni sem fram hefur komið um aðgerðirnar en fjöldi samtaka hafa fordæmt brottvísunina.
„Ef það hafa einhver mistök eða misbrestir orðið á, þá viljum við fara yfir það af festu og læra af því,“ sagði hann og bætti við að verið væri að vinna í greinagerð um aðgerðina.
Helgi sagði víst að alveg ljóst væri að lögreglan ætti að eiga bifreið sem er útbúin fyrir hjólastól, en einn hælisleitendanna er í hjólastól. „Það er fyrsti lærdómurinn sem við drögum af þessu.“
Spurður af hverju farsímar voru teknir af fólki sagði Helgi að það væri gert til að tryggja öryggi. Bogi Ágústsson fréttamaður spurði þá hvort farsímar væru hættulegir og neitaði Helgi því.
„Farsímar eru ekki hættulegir, nei, en það er hins vegar svo að við erum með handtekna einstaklinga hérna í höndunum og þá ber okkur að tryggja ekki síst öryggi þeirra og þetta er liður í þeirri framkvæmd. Hvort að það þurfi að endurskoða þetta eða eitthvað er þá eitthvað sem við þurfum bara að fara yfir.“