Rétt fyrir klukkan eitt í dag barst lögreglunni á Norðurlandi vestra tilkynning um einstakling sem hafði runnið niður fjallshlíð langa vegalengd og hlaut nokkuð slæm meiðsli af. Slysið átti sér stað í Mánaskála í Laxárdal.
Í Facebook-færslu lögreglunnar kemur fram að björgunarsveit og sjúkralið, ásamt lögreglu, fóru á vettvang og var þá þyrla Landhelgisgæslunnar fenginn til að flytja hinn slasaða á Landspítalann í Reykjavík til aðhlynningar.
Ekki er vitað um líðan hins slasaða á þessari stundu og gat vaktstjóri hjá Landhelgisgæslunni ekki veitt frekari upplýsingar er mbl.is leitaði eftir því.