Um sex hundruð einstaklingar hafa leitað til Frú Ragnheiðar á þessu ári og margir hafa komið reglulega en alls eru heimsóknirnar um fimm þúsund sem af er ári.
Þetta kom fram í máli Sigurðar Hólm Gunnarssonar teymisstjóra skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu á málþingi SÁÁ og FÁR um fíknivanda.
Frú Ragnheiður hefur verið starfandi frá árinu 2009 og starfar í sérútbúnum bíl sem keyrir um á milli klukkan 18 - 21 sex daga vikunnar. Fólk sem getur ekki, eða vill ekki, hætta í neyslu getur óskað eftir aðstoð frá starfsfólki Frú Ragnheiðar en markmiðið með starfssemininni er skaðaminnkun.
Mest er um einstaklinga sem sprauta fíkniefnum í æð. Þau fá þjónustu varðandi nálaskipti ef svo ber undir en einnig heilbrigðisaðstoð. Einnig er veitt aðstoð í sambandi við hlýjan fatnað, tjöld og svefnpoka því margir þessara einstaklinga eigi ekki í nein hús að venda að sögn Sigurðar.
Sigurður sagði nálaskiptaþjónustuna afskaplega mikilvæga því neytendur noti annars sömu nálarnar aftur og aftur sem er hættulegt vegna hættunar á lifrarbólgu C og HIV.
Hann benti einnig á að notendur láti Rauða krossinn hafa notaðar sprautunálar og því minnki það mjög líkurnar á því að slíkar nálar liggi á víðavangi með tilheyrandi hættu, til dæmis fyrir börn. Sagði hann notendur hafa skilað inn miklu magni af notuðum sprautunálum.