Valdeflandi fyrir konur

Unnur Þorsteinsdóttir vísindakona.
Unnur Þorsteinsdóttir vísindakona. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að þetta sé fyrst og fremst valdeflandi fyrir konur,“ segir Unnur Þorsteinsdóttir en á dögunum var gjört heyrinkunnugt að hún væri áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta áhrifamesta í heiminum, samkvæmt nýjum lista vefsins Research.com. 

„Það hlýtur að vera kærkomið fyrir þær að sjá að íslensk kona hefur náð þessum árangri í hinum karllæga heimi vísindarannsóknanna,“ bætir Unnur við en hún er forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Hún segir það landslag þó óðum að breytast. „Konur verða sífellt meira áberandi á stórum rannsóknarstofum úti í heimi og hér hjá Íslenskri erfðagreiningu fer ungum og vel menntuðum konum ört fjölgandi. Sú þróun kemur svo sem ekki á óvart enda eru konur í talsverðum meirihluta í háskólum á Íslandi. En það tekur tíma að láta að sér kveða og byggja upp virðingu. En viðurkenning af þessu tagi segir íslenskum vísindakonum svo ekki verður um villst að þetta er hægt.“

Tækifærin almennt meiri

Tækifæri kvenna á sviði vísinda og á vinnumarkaðnum almennt eru mun meiri í dag en þau voru þegar Unnur var að stíga sín fyrstu skref og segir hún það ekki síst breyttu hugarfari að þakka. Konur séu til dæmis orðnar meirihluti háskólanema og í læknisfræðinni þar sem karlar réðu lögum og lofum áður eru stelpur sjö af hverjum tíu nemendum. „Valdastrúktúrinn í samfélaginu hefur breyst mikið á til þess að gera skömmum tíma og áhrif kvenna á hinum ýmsu sviðum eru orðin mun meiri. Nú má eiginlega segja að staða drengja í skólum sé orðin meira áhyggjuefni.“

Hún segir ánægjulegt að sjá fleiri og fleiri öflugar konur láta til sín taka í samfélaginu og nýjasta dæmið sé Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar. „Það er kona með skýra sýn sem veit nákvæmlega hvað hún vill og er komin til að breyta hlutum.“

Nánar er rætt við Unni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert