Uppi varð fótur og fit í Útvarpshúsinu í Efstaleiti á dögunum þegar út spurðist að sjálfur heimsmeistarinn í skák, Magnús Carlsen, væri á leið í hús í einkaviðtal. Rykið var dustað af Páli Magnússyni, fyrrverandi útvarpsstjóra, til að ræða við hann og Úlfi Grönvold leikmyndahönnuði falið að annast umgjörðina.
Úlfur ákvað að tjalda öllu til og fann forláta skákborð úr fílabeini til að hafa í settinu; gúglaði svo gamla skák sem Bobby Fischer hafði teflt á unglingsárum og stillti mönnunum upp eins og staðan var í henni miðri.
Þegar Carlsen mætti á svæðið hugsaði Úlfur hins vegar með sér: „Æ, hvað hef ég gert!?“ Heimsmeistarinn hafði nefnilega miklu meiri áhuga á stöðunni á borðinu en nokkurn tíma Páli og viðtalinu. „Ég hjó eftir því meðan á viðtalinu stóð að hann var alltaf annað slagið að gjóa augunum á borðið,“ segir Úlfur.
Páll hafði heldur ekki fyrr kvatt áhorfendur en Carlsen rauk að borðinu og kláraði skákina, eins og Fischer og andstæðingur hans höfðu gert á sjötta áratugnum. „Hann þekkti þessa skák auðvitað eins og lófann á sér, enda er hún víst mjög fræg og hafði orð á því að einhver forfallinn skákáhugamaður hlyti að hafa stillt þessu upp.“
Ert þú það, Úlfur?
„No comment!“