Ánægður að áherslumál sín hafi komist til skila

Guðlaugur Þór Þórðarson er stoltur.
Guðlaugur Þór Þórðarson er stoltur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Að fá svona kosningu gegn sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins eru mjög jákvæð skilaboð. Ég er mjög stoltur af því og stoltur af mínu stuðningsfólki.“

Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson í samtali við blaðamann mbl.is þegar úrslit urðu ljós, en Bjarni Benediktsson bar sigur úr býtum í formannsslag þeirra. Guðlaugur hefur ekki áhuga á varaformannsstólnum, þrátt fyrir að enn sé möguleiki fyrir hann að bjóða sig fram til varaformennsku í ljósi úrslitanna. 

Þreyttur á varnarsigrum

Hann kveðst ánægður að heyra að mál þau sem hann hafi lagt áherslu á séu komin til umræðu. 

„Enda gat ég ekki betur heyrt en að formaðurinn tæki undir þau,“ segir hann og er þá að vísa til ræðu Bjarna þegar niðurstaðan varð ljós.

Bjarni talaði þá um að flokksmenn yrðu að snúa bökum saman og sækja fram. 

„Þetta er það sem ég hef verið að leggja áherslu á. Við erum orðin þreytt á því að vinna sífellda varnarsigra. Við getum verið stolt af því að vera Sjálfstæðisfólk. Við getum verið stolt af gildunum okkar og sögu flokksins.“

Ég mæti bara í vinnuna á morgun

Þá telur hann að með því að skerpa og leggja meiri áherslu á flokksstarfið og grunngildin frelsi og stétt með stétt, verði unnt að ná betri árangri. 

Spurður hvort honum þyki þessi málefni skipta meira máli heldur en formannsstóllinn segir Guðlaugur: „Ég auðvitað bauð mig fram því ég vildi verða formaður Sjálfstæðisflokksins og tel að ég hefði verið best til þess fallinn að leiða þessa vinnu, en ég held að aðalatriðið sé það að hún verði framkvæmd og beri árangur.“

Guðlaugur á ekki von á því að þetta þurfi að hafa áhrif á hans stöðu í ríkisstjórninni. 

„Ég bara mæti á morgun í vinnuna eins og vanalega. Þar eru mörg spennandi verkefni sem mikilvægt er að sinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert