Hætt er við frostrigningu með flughálku norðaustanlands í dag, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.
Aðstæður sem þessar geta skapast þegar milt og rakt loft flæðir yfir frostkalt yfirboðið. Einkum frá Öxnadalsheiði og austur á Hérað.
Kaldast er á Bárðarbungu í dag, þar sem hiti fer niður í -10 gráður.
Vegagerðin hefur gefið út viðvaranir vegna hálkubletta á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Vatnaleið, í Kolgrafafirði og Grundarfirði á Vesturlandi.
Þá er hálka á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum, en hálkublettir víða á fjallvegum og hálsum, í Bitrufirði, Hrútafirði og norður í Árneshrepp.
Á Norðurlandi er hálka og hálkublettur víða og sama gildir um Norðausturland. Greiðfært er meðfram ströndinni frá Kópaskeri að Vopnafirði en snjóþekja á Hólasandi.
Fjarðarheiði, Öxi og Breiðdalsheiði á Austurlandi eru allar hálar um þessar mundir.