„Mig vantar að tala við vinkonur mínar“

Sigrún Ásta Gunnarsdóttir flutti ræðu í dag.
Sigrún Ásta Gunnarsdóttir flutti ræðu í dag. Ljósmynd/Aðsend

Sigrún Ásta Gunnarsdóttir, nemandi við Fjölbrautarskólann við Ármúla og vinkona stúlknanna tveggja sem voru sendar úr landi aðfaranótt fimmtudags, segir í samtali við mbl.is að stjórnvöld séu búin að skemma líf vinkvenna hennar. „Þær vildu verða læknar, það er bara búið að taka læknadrauminn í burt.“

Sigrún var ein ræðumanna á mótmælum sem alls tíu samtök stóðu fyrir á Austurvelli í dag.

Yis­men Hussi­en kom til Íslands fyrir tveimur árum ásamt yngri systur sinni, móður, og tveimur bræðrum. Stúlkurnar stunduðu báðar nám við FÁ en þær kynntust Sigrúnu í enskutíma í haust.

Hún segir að hún hafi alls ekki búist við því að þær yrðu fluttar úr landi nokkrum mánuðum síðar. 

Frá Austurvelli í dag.
Frá Austurvelli í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Draumurinn er að fá þau aftur heim“

Sigrún segir að stúlkunum hafi liðið eins og glæpamönnum er þeim var vísað úr landi. Hún hefur verið í sambandi við þær síðan þær komu til Grikklands en segir það þó vera erfitt, þær eigi ekki auðvelt með að vera í netsambandi. „Mig vantar að tala við vinkonur mínar.“

Sigrún minnist á að Yismen hafi átt 24 ára afmæli 4. nóvember, daginn eftir að hún kom til Grikklands. „Það var ömurlegur dagur hjá henni.“

Sigrún segir að mætingin og samstaðan á mótmælunum í dag hafi verið gríðarlega góð. „Svo fallegt að sjá.“

„Draumurinn er að fá þau aftur heim. Ég vona svo innilega að þetta komi ekki fyrir fleira fólk sem hefur búið hérna í meira en tvö ár.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert