Stóð hjarta mínu nær að vera með konu

Unnur Þorsteinsdóttir vísindakona.
Unnur Þorsteinsdóttir vísindakona. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, skildi við eiginmann sinn til fjölda ára árið 2009 og fór í framhaldinu að vera með konu. Hún viðurkennir að skilnaðurinn hafi verið erfiður en allt sé gróið um heilt og þau séu góðir vinir í dag.

„Það var á hinn bóginn ekkert erfitt að koma út sem lesbía, því var alls staðar vel tekið. Bæði af fjölskyldu, vinum og hérna í vinnunni.“

Hún bjó eftir þetta um átta ára skeið með konu en er nú einhleyp.

 – Varstu búin að vita lengi að þú værir samkynhneigð?

„Nei, í raun og veru ekki. Það vantaði allar fyrirmyndir þegar ég var að alast upp og ég gerði eiginlega ekki ráð fyrir þessum möguleika. Samband mitt og fyrrverandi mannsins míns einkenndist alla tíð af mikilli vináttu og sameiginlegum áhugamálum. Undir lokin var efinn þó farinn að blunda í mér og um leið og ég fór að vera með konu áttaði ég mig á því að það stæði hjarta mínu nær.“

Áhyggjur af bakslagi

Að undanförnu hefur mikið verið rætt og ritað um bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi en Unnur kveðst ekki hafa reynt það á eigin skinni.

„En ég heyri um þetta, sérstaklega virðist ungt fólk vera óvægið og kvikindislegt við hinsegin fólk. Þetta er afleit þróun. Það er til mikils að halda í árangur baráttu samkynhneigðra í gegnum tíðina, það má ekki missa sjónar á því sem hefur kostað svo miklar fórnir á löngum tíma. Það getur hreinlega komið aftan að okkur ef við erum ekki vakandi fyrir því.“

Nánar er rætt við Unni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en eins og fram hefur komið er hún áhrifamesta vísindakona Evrópu og sú fimmta áhrifamesta í heiminum, samkvæmt nýjum lista vefsins Research.com.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert