Væri mikill heiður að leiða flokkinn

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir á landsfundi eftir að tölur voru …
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir á landsfundi eftir að tölur voru kynntar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Stuðningurinn hefur mikla þýðingu og þetta er satt að segja meiri stuðningur en ég þorði að vona. Þetta er í raun stuðningur sem skiptir mig máli fyrir störfin og verkefnin fram undan og næstu skref,“ segir Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Er blaðamenn mbl.is náðu af henni tali sagðist hún vera mjög ánægð með hlutverkið. Hún segir það vera gott að finna að landsfundarfulltrúar standi á bak við hana sem varaformann í Sjálfstæðisflokknum. 

„Ég heiti því að nota þetta sem kraft til góðra verka.“

Taldi ekki að Guðlaugur myndi bjóða sig fram

Þórdís segir að undirbúningur hennar fyrir framboðið hafi aðallega snúist um að hafa samband við fólk sem var á leið á landsfundinn, auk þess sem mikilvægt sé að eiga gott bakland. 

„Ég gerði mitt besta til að reyna snerta á sem flestum til þess að heyra í fólki. Maður getur aldrei tekið þessu sem sjálfsögðum hlut og alls ekki þó maður sé einn í framboði.“

Innt eftir því hvort hún hafi búist við að Guðlaugur Þór Þórðarson myndi bjóða sig fram til varaformanns svarar Þórdís því neitandi. 

Tilbúin að bjóða fram krafta sína

Má reikna með að þú sjáir fyrir þér formannssætið í nálægri framtíð?

„Í mínum huga er það eðli varaformannsembættis að vera tilbúin að bjóða fram krafta sína sem formaður og ég leyni því ekkert að það væru mikil forréttindi og mikill heiður ef það er vilji flokksmanna á einhverju tímapunkti að styðja mig til forystu og formanns Sjálfstæðisflokksins.“

Þórdís segist vera ánægð með úrslit formannskjörsins en hún hafði áður gefið út að hún myndi styðja Bjarna. 

„Nú er það okkar hlutverk að vinna úr þeirri sterku stöðu og nota þann meðbyr og kraft sem fylgir því þegar það verður til svona ofsalega mikið líf verður til innan flokksins á stuttum tíma.“

Hluti af því að vera í stórum flokki

Hvernig sérðu fyrir þér að unnið verði úr þeim átökum sem hafa myndast innan flokksins?

„Minn punktur er í raun og veru sá að það er undir okkur komið. Það er ekki óþekkt og það er hluti af því að vera í stórum flokki með mikla og langa sögu og mikinn metnað að það komi upp alls kyns baráttur, hvort sem það er til formanns eða forystu eða í prófkjörum eða annað slíkt.“

Muntu þurfa að vinna virkt í því að græða sárin?

„Ég treysti því einfaldlega að þau sem hingað mæta og þau sem mynda svona grasrót og trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins, að við séum öll sammála um það að frumskylda okkar er að gera gagn fyrir Ísland. Hvernig er það best gert? Það er best gert þannig að við vinnum saman að því og ég trúi því að það verði niðurstaðan. Við þurfum líka að hlusta á hvort annað og leita leiða til að ná betri árangri, til þess er þetta allt gert,“ segir Þórdís að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert