„Mér fannst gott að koma þarna saman með fólki sem er að taka afstöðu. Það þýðir ekkert kjarkleysi núna,“ segir Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra ungmenna og fatlaðs fólks af erlendum uppruna hjá Þroskahjálp, í samtali við mbl.is.
Hún var ein ræðumanna á mótmælum á Austurvelli vegna ómannúðlegra brottvísana íslenskra stjórnvalda á flóttafólki til Grikklands.
Anna Lára nefnir að Þroskahjálp hafi verið að garfa í málefnum fatlaðra umsækjanda um alþjóðlega vernd í tvö ár og reynt að fá áheyrn um það.
„Vegna þess að við teljum að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi að tala inn í málsmeðferðina, sem er ekki núna,“ segir hún og bætir við að samtökin hafi aldrei fengið nein svör af hverju svo er ekki.
Hassein Hussien var einn þeirra sem sendur var úr landi aðfaranótt fimmtudags, en hann er í hjólastól. Í viðtali við mbl.is í gær greindi Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris, frá því að hann sé nú á götunni og hafi ekki borðað í þrjá daga.
„Okkur finnst svo sérkennilegt að stjórnvöld hafi ekki tekið því fagnandi að mál Hussien sé að fara fyrir dómstóla og gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að málsmeðferðin yrði eins vönduð og mögulegt er til að fá góða og vandaða niðurstöðu í málið,“ segir Anna Lára og bætir við að þess hafi að sjálfsögðu verið krafist að Hussien fengi að vera hér á landi.
„Ég vona bara að þetta hafi verið eitthvað klúður og fljótfærni og að maðurinn verði bara fluttur hingað umsvifalaust aftur til baka svo að hann geti verið viðstaddur þegar málið verður tekið fyrir.“
Ríkislögreglustjóri greindi frá því á fimmtudag að málum allra hælisleitendanna sem var vísað úr landi hafi verið lokið hjá Útlendingastofnun.
Anna Lára segir að það sé sérkennilegt að umræðan um málið hafi snúið að framkvæmd að þessari tilteknu brottvísun.
„Eins ömurleg og hún var, þá er það ekki aðalatriðið í þessu máli. Aðalatriðið í þessu máli er að fatlaður maður var fluttur til Grikklands þar sem við vitum að hann mun ekki getað fengið þá aðstoð sem hann þarf – hann þarf aðstoð við allar athafnir daglegs lífs – og þetta er ekki bara eitthvað sem okkur finnst eða sem við höldum heldur vitum við að hann mun ekki fá þá aðstoð sem hann þarf.“
Þá nefnir Anna Lára að ekki sé einhugur um að framkvæmdin hafi verið samkvæmt lögum meðal lögfræðinga, „hvað þá almennings“.
„Það eru ekkert bara svona leikmenn eins og ég sem eru að gagnrýna þetta, heldur lögfræðingar líka. Þess vegna myndi ég halda að það væri gríðarlega mikilvægt fyrir stjórnvöld að fá skýrt svar.
Það er að minnsta kosti mjög mikilvægt fyrir okkur, vegna þess að ef að stjórnvöld komast að því að þetta hafi verið lögmætur gjörningur og allt í gúddí og að samningur SÞ hafi ekki vægi hvað þennan hóp varðar, þá þurfum við að breyta baráttu okkar og berjast fyrir því að lögunum verði breytt vegna þess að þá eru þau engan veginn mannúðleg.“
Anna Lára segir mótmælendur helst hafa kallað eftir mannúð í málefnum hælisleitenda í dag.
Hún segir að ef fólkið hefði verið sent til einhvers annars lands en Grikklands, til dæmis Þýskalands, þá hefðu viðbrögðin verið önnur.
„Það vita það allir sem vilja vita – þó að Jón Gunnarsson hafi ekki áhyggjur af því prívat og persónulega – að aðstæður í Grikklandi eru ekki mannsæmandi,“segir Anna Lára og bætir við að Grikkir séu löngu komnir yfir sín þolmörk er kemur að fjölda flóttamanna.
„Af því að það er enginn annar til í að axla ábyrgð á þessu verkefni.“