Ný vatnsveita í pípunum

Jón Páll Hreinsson er bæjarstjóri í Bolungarvík.
Jón Páll Hreinsson er bæjarstjóri í Bolungarvík. mbl.is/Sigurður Bogi

Áformað er að gera nýja vatnsveitu í Bolungarvík á næstu tveimur árum sem sækir vatn í borholur. Bæjarins Besta greinir frá þessu í dag. 

Þar er rætt við Jón Pál Hreinsson, bæjarstjóra í Bolungarvík, sem segir að vatnsþörfin á svæðinu hafi aukist meðal annars vegna laxasláturhúss sem verður tekið í notkun á næsta ári. 

Á BB kemur fram að kostnaðaráætlun hljóði upp á 268 milljónir króna og er haft eftir Jóni Páli að kostnaðurinn væri sveitarfélaginu ofviða ef ekki kæmu til styrkir úr Fiskeldissjóði. Hefur Bolungarvíkurkaupstaður fengið 33,4 milljónir í styrk úr sjóðnum vegna framkvæmdanna en sótt verður um frekari styrki vegna nýrrar vatnsveitu. 

Framendi laxasláturhúss Arctic Fish í Bolungarvík mun líta út eins …
Framendi laxasláturhúss Arctic Fish í Bolungarvík mun líta út eins og á myndinni. Tölvuteikning/Arctic Fish

Bæjarstjórinn segir eðlilegt að gjaldið sem nú rennur í Fiskeldissjóð gangi beint til sveitarfélaganna sem nýr tekjustofn. Eigi sveitarfélögin að geta fylgt uppbyggingu nýrra atvinnugreina eins og fiskeldi þurfi þau að fá tekjustofna til þess að standa undir kostnaðinum.

Vatnsveitan myndi leysa af hólmi núverandi vatnsveitu sem byggir á hreinsuðu og geisluðu yfirborðsvatni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert