Stefnt er að því að efna til leiðtogafundar Evrópuráðsins í maí á næsta ári í Reykjavík. Alls eiga 46 ríki aðild að ráðinu en fundurinn yrði sá fjórði sem haldinn yrði í sögu ráðsins. Fundur af slíkri stærðargráðu hefur ekki verið haldinn áður á Íslandi.
Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu af Írlandi í þessari viku og stendur formennskan yfir næsta hálfa árið. Þegar því skeiði lýkur í maí á næsta ári er áformað að efnt verði til leiðtogafundarins.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Morgunblaðið greindi frá því í júní að Ísland hefði boðið sig fram sem gestgjafi og að mikill áhugi værir fyrir því.
Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar og formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, sagði þá að á fundinum yrði framtíð Evrópuráðsins til umræðu í ljósi breyttrar stöðu alþjóðamála. Auk þess yrði farið yfir hvert framtíð Evrópu stefnir og hvernig hægt sé að þétta raðirnar um sameiginleg gildi Evrópuríkjanna.
Fram kemur á vef Stjórnarráðsins að aðildarríkin hefðu sammælst um að ríkt tilefni væri til að leiðtogar ríkjanna 46 kæmu saman á þeim viðsjárverðu tímum sem nú væru uppi. Samhljóða ákvörðun þess efnis var tekin á fundi ráðherranefndar Evrópuráðsins í dag.
„Evrópuráðið snýst um grunngildi samfélaga okkar; lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Innrásin í Úkraínu, heimsfaraldur og efnahagsþrengingar skapa áskoranir fyrir þessi grunngildi og því hefur aldrei verið mikilvægara að leiðtogar Evrópuþjóða endurnýi heitin og séu samtaka um að standa vörð um þessi gildi. Ísland mun taka formennskuhlutverk sitt alvarlega enda tökumst við á við þetta verkefni á krefjandi tímum,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
„Ljóst er að sú staða sem upp er komin í álfunni í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu verður í brennidepli á leiðtogafundinum. Aðstæður til að halda slíkan fund gætu því varla verið meira knýjandi og augu umheimsins munu án efa beinast að Íslandi þessa daga á vori komanda," er haft eftir Þórdísi Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.