Guðjón Valdimarsson, faðir Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra, tók æði illa í lögreglurannsókn eftir að tveir menn, grunaðir um að skipuleggja hryðjuverkaárás, sögðust hafa fengið hálfsjálfvirk vopn frá honum. Stundin greinir frá.
Sagt er að Guðjón hafi sagt við lögreglumenn að ef þeir vissu hverra manna hann væri myndu þeir ekki vera að skoða hvern krók og kima að leita að vopnum nema þeir væru að reyna að koma höggi á lögreglustjórann, dóttur sína.
Komið hefur fram áður í fréttum að við húsleitina 28. september síðastliðinn á heimili Guðjóns hafi fundust tugir vopna sem ekki voru skráð og Guðjón gat ekki gert grein fyrir.
Sagt er að Guðjón hafi neitað alfarið að þekkja mennina tvo eða að hafa átt við þá nokkur viðskipti. Áður en húsleitin fór fram var Guðjóni tjáð af lögreglu að talið væri að hann hefði brotið vopnalög með því að kaupa þrívíddarprentað skotvopn og eins að hann hefði lánað Colt-riffil sem Guðjón sagði vera algjört kjaftæði samkvæmt Stundinni.
Eftir því sem leið á húsleitina virtist Guðjón verða stöðugt pirraðri og harðneitaði að þekkja nokkurn sem hann var spurður um og sagðist aldrei hafa séð þrívíddarriffil nema í sjónvarpinu. Þegar lögregla gekk á hann með spurningum bauðst hann til að taka lygapróf til að styðja málstað sinn. Sérstaklega voru tíðar spurningar lögreglu um Colt-rifilinn að pirra hann og hann sagðist vera með öll gögn um sölur alveg hálfa öld aftur í tímann.
Hann klykkti út með að segja líkja lögreglunni við Stasi-sveit austur-þýsku lögreglunnar og sagði þá aldrei myndu hafa komið svona fram við hann nema af því að hann væri faðir lögreglustjóra.