Stjórnvöld hafa lagt fram aðgerðir til að fjölga nemum í starfsnámi. Aðgerðirnar byggja á tillögum starfshóps sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, skipaði í sumar með fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðar, skólameisturum starfsmenntaskólanna og Menntamálastofnun, auk ráðuneytisins.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að ráðuneytið hafi unnið að stækkun helstu verknámsskóla og greiningu á húsnæðisþörf framhaldsskóla á undanförnum misserum.
Meðal aðgerða er nýtt og stærra húsnæði fyrir Tækniskólann í Hafnarfirðinum í burðarliðnum í samræmi við ríkisstjórnarsáttmála, stækkun starfsmenntaaðstöðu Fjölbrautaskólans í Breiðholti um 2.400 fermetra sem fer brátt í útboð og hefur ráðuneytið falið Borgarholtsskóla að setja af stað nýja braut í pípulögnum.
Þá samdi ráðuneytið við nýstofnaða Nemastofu atvinnulífsins um átaksverkefni í að fjölga nemaplássum og fyrirtækjum sem taka við nemum, auk þess að stuðla að góðu starfsumhverfi nema óháð kyni.
Í tilkynningunni segir að meginástæðan fyrir höfnun á námsplássi samkvæmt könnun sem starfshópurinn lagði fyrir skólameistara starfsmenntaskóla er skortur á fagmenntuðum kennurum og/eða skortur á viðeigandi húsnæði.
„Fyrirsjáanlegt er að mikil þörf er á næstu árum fyrir nýliðun í mörgum iðngreinum vegna aukinna umsvifa á vinnumarkaði, þá er meðalaldur í sumum þessara greina hár og margir munu því hverfa af vinnumarkaði á næstu árum. Á þetta m.a. við um húsasmíði, rafvirkjun, ýmsar greinar vél- og málmsmíði, pípulagnir og bíliðngreinar. Starfshópurinn leggur til að leitað verði leiða til að fleiri umsækjendur í þessar greinar fái skólavist.“
Af 2.550 umsækjendum um skólavist í starfsnámi haustið 2022 fengu 2.026 skólavist og 485 fengu höfnun á skólavist. Flestir fengu höfnun á skólavist á höfuðborgarsvæðinu, einkum í Tækniskólanum, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla, og að einhverjum hluta á Norðurlandi, einkum í Verkmenntaskólanum á Akureyri.