Lífið í Kænugarði, höfuðborgar Úkraínu, heldur áfram þó svo að stríð geisi í landinu. Fyrir utan rafmagnsleysi og útgöngubann er lítið hægt að kvarta yfir aðstæðum, að mati Íslendings sem þar býr. Aðra sögu er þó að segja af öðrum bæjum og borgum sem ekki eru eins vel varin og hafa verið í miðju átaka síðustu mánuði.
„Fyrir mig er þetta ekkert mál af því ég er búinn að vera inni á svæðum í marga mánuði – eða fara fram og til baka, þar sem að staðan er svo mikið, mikið, mikið verri heldur en í höfuðborginni. Í höfuðborginni er þetta bara óþægilegt,“ segir Óskar Hallgrímsson um hvernig það sé að eiga heima í höfuðborginni um þessar mundir.
Óskar, sem er gestur Dagmála í dag, er ljósmyndari en undanfarna mánuði hefur hann fylgst grannt með gangi stríðsins og slegist í för með blaðamönnum og björgunarmönnum á stríðshrjáð svæði til þess að taka þátt í aðgerðum og mynda aðstæðurnar sem fólk hefur neyðst til að flýja eða býr enn við.
Kramatorsk er ein þeirra borga sem hann hefur heimsótt en vandamálin í höfuðborginni fölna í samanburði við þau sem íbúarnir þar þurfa að glíma við.
„Það er allt lokað, það eru stanslausar árásir allt í kring. Það eru fleiri hermenn inni í borginni heldur enn almennir borgara. Það er einn kebab-staður. Það er borg sem hefur reynt að halda vatni í gangi, reynt að halda rafmagni í gangi. Stundum eru þeir rafmagnslausir í marga, marga daga. Aðstæðurnar eru svo mikið verri á öðrum stöðum og þegar að ég kem heim – að ég sé rafmagnslaus í nokkra klukkutíma, þá finnst mér það bara allt í lagi. Ég finn ekkert fyrir því,“ segir Óskar.