Ríkisendurskoðun mun ljúka við skýrslu um söluna á hlut ríkisins Íslandsbanka í þessari viku og afhenda hana forseta Alþingis í lok vikunnar. Gert er ráð fyrir því að skýrslan verði gerð opinber mánudaginn 14. nóvember.
Þetta staðfestir Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, í samtali við mbl.is
„Já algjörlega, þetta er að klárast hjá okkur,“ segir Guðmundur.
„Ég geri ráð fyrir því sem stendur að kynning af okkar hálfu fari ekki fram fyrr en á mánudaginn og skýrslan verði þá sett í loftið á vefnum hjá okkur samdægurs, segir Guðmundur jafnframt.
Skýrslan verður gerð opinber um leið og Ríkisendurskoðun hefur gefist tækifæri á því að kynna innihald skýrslunnar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
„Ég á von á því að það verði á mánudagseftirmiðdag.“
Skýrslunnar hefur verið beðið um nokkur skeið. Upphafleg áætlun miðaðist við að skýrslan kæmi út fyrir lok júní. Sú áætlun miðaðist við að öll gögn lægju fyrir í málinu, en svo reyndist ekki vera. Var þá talað um að skýrslunni yrði líklega skilað fyrir verslunarmannahelgi.
Um miðjan ágúst var gert ráð fyrir því að skýrslan yrði tilbúin fyrir ágústlok, en frekari tafir urðu og um miðjan september var miðað við skýrslan kæmi út fyrir lok mánaðarins. Enn urðu tafir en til stóð að lokið yrði við gerð skýrslunnar fyrir októberlok, sem gekk svo ekki eftir.