Stöðva sendingar á jólahangikjötinu

Fyrirtækið nammi.is hefur sent kjöt og aðrar íslenskar afurðir til …
Fyrirtækið nammi.is hefur sent kjöt og aðrar íslenskar afurðir til Bandaríkjanna í tvo áratugi og alltaf gengið vel. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Erfitt getur orðið fyrir Íslendinga, sem búsettir eru í Bandaríkjunum, að fá hangikjötið sitt fyrir jólin. Yfirvöld matvælamála hafa tilkynnt um hertar reglur um innflutning á kjöti sem þýðir að DHL-flutningsmiðlunin treystir sér ekki til að taka við neinum sendingum með kjöti til Bandaríkjanna.

Fyrirtækið nammi.is hefur sent kjöt og aðrar íslenskar afurðir til Bandaríkjanna í tvo áratugi og alltaf gengið vel, að sögn Sófusar Gústavssonar framkvæmdastjóra, svo fremi sem sendingarnar hafi verið til einstaklinga og magnið hæfilegt. Fara um eitt þúsund slíkar sendingar á ári, mest fyrir jól, páska og þjóðhátíðardag Íslendinga. Ef ekki tekst að finna aðrar leiðir er ljóst að margar íslenskar fjölskyldur fá ekki jólahangikjötið sitt. Inni í þessari heildartölu eru einnig sendingar til Bandaríkjamanna, til dæmis á pylsum sem þeir hafa kynnst á Bæjarins bestu eða annars staðar.

Fyrir tveimur vikum tilkynnti DHL fyrirtæki Sófusar að þeir gætu ekki flutt kjöt til Bandaríkjanna vegna hertra reglna um innflutning á kjöti til landsins. Taldi hann að bandaríska matvælaeftirlitið væri að framfylgja reglunum. Gögn, sem Sófus hefur fengið að skoða hjá utanríkisráðuneytinu, sýna að heimilt er að flytja lambakjöt til Bandaríkjanna en skilaboðin að utan eru þau að allt kjöt sé bannað. Sófus hefur verið að kanna málið og reyna að finna aðrar leiðir til að koma sendingum af þessu tagi til skila fyrir viðskiptavini sína. Hann hefur sent fyrirspurn til bandaríska sendiráðsins og ræðismanns ytra.

Sófus segir að allar leiðir verði kannaðar. Hugsanlegt sé að koma upp birgðum af hangikjöti í Bandaríkjunum og afgreiða þær úr vöruhúsi þar. Hann segir að það sé flókið í framkvæmd.

Hertar reglur

Hangikjötið er yfirleitt sent frosið í þar til gerðum umbúðum. Oft fylgja grænar baunir, rauðkál og laufabrauð og jafnvel íslenskt sælgæti. Þessar aukavörur mega vissulega fara áfram til Bandaríkjanna, en ekki kjötið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert