Grunur leikur á um að mygla hafi fundist í húsnæði dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hlíðar við Austurbyggð á Akureyri og að heilsufarsleg einkenni einhverra íbúa þar megi rekja til ástands húsnæðisins. Greint er frá þessu á bæjarmiðlinum Akureyri.net.
Segir þar að Akureyrarbær og heilbrigðisráðuneytið, eigendur húsnæðisins, hafi ekki samþykkt að láta gera nánari úttekt á loftgæðum innanhúss og greiða fyrir hana en tvær verkfræðistofur hafi verið tilbúnar að verða við beiðninni. Þetta kemur fram í bréfi framkvæmdastjóra Heilsuverndar hjúkrunarheimilis (HH) sem barst starfsfólki í dag.
Fulltrúar frá HH hafa óskað eftir fundi með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins og Akureyrarbæ eins fljótt og unnt er.
Tveir íbúar munu flytja frá Hlíð þar sem grunur liggur á um að einkenni þeirra megi rekja til húsnæðisins. „Ekki verða teknir inn nýir íbúar í þau rými meðan óvissa ríkir um hvernig brugðist verður við niðurstöðum úttektar á húsnæðinu,“ segir í bréfinu.