Hafnfirðinga bíða lægri fasteignagjöld

Mikil uppbygging í Hafnarfirði um þessar mundir er meðal þess …
Mikil uppbygging í Hafnarfirði um þessar mundir er meðal þess sem greint er frá í fréttatilkynningu um fjárhagsáætlun bæjarins. Ljósmynd/Aðsend

Fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði lækka og rekstrarniðurstaða A- og B-hluta sveitarfélagsins er jákvæð um 541 milljón króna er meðal þess sem fram kemur í tillögu að fjárhagsáætlun bæjarins sem lögð var fyrir bæjarstjórn til fyrri umræðu í gær.

Kemur þetta fram í fréttatilkynningu bæjarstjórnar þar sem enn fremur er greint frá því að mikil uppbygging eigi sér nú stað í nýjum hverfum bæjarins, á þéttingarreitum og atvinnusvæðum. Þá sé gert ráð fyrir töluverðri fjölgun íbúa á komandi árum sem skila muni sér í auknum tekjum sveitarfélagsins.

Útsvarsprósenta verður óbreytt 14,48 prósent en heildarálagning fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,744 í 0,704 prósent með lækkun vatns- og fráveitugjalda. Þá er áætlað að útgjöld vegna málefna fatlaðra aukist um 23 prósent á næsta ári og nemi þá liðlega fimm milljörðum króna.

Rekstrarumhverfið krefjandi

„Hafnarfjarðarbær er rekinn með ábyrgum hætti. Því er gert ráð fyrir afgangi hjá bæjarsjóði á árinu 2023 og að skuldaviðmið haldist áfram undir 100 prósentum. Sem fyrr leggjum við megináhersluna á aðhald í rekstri og við gætum þess að auka ekki álögur á íbúa,“ er haft eftir Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra í tilkynningunni.

„Rekstrarumhverfið er krefjandi þar sem sveitarfélög hafa á undanförnum árum tekið að sér aukna félagslega þjónustu án þess að fjármagn hafi fylgt frá ríkinu. Við gætum þess þó að það komi ekki niður á metnaðarfullri þjónustu í Hafnarfirði en brýnt er að þetta misræmi verði lagað sem fyrst. Fram undan er bjart í Hafnarfirði og ég er þess fullviss að sú mikla uppbygging sem nú á sér stað í bænum, með hraðri fjölgun íbúa og fyrirtækja, muni skapa mikil tækifæri til framtíðar,“ segir bæjarstjóri enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka