Lögregla hafi ekki fyrirskipað að hindra fjölmiðla

Sterk ljós mættu fréttafólki RÚV á vettvangi við flugvöllinn aðfaranótt …
Sterk ljós mættu fréttafólki RÚV á vettvangi við flugvöllinn aðfaranótt fimmtudags. Skjáskot/Ruv.is

Það var aldrei ætlun „aðila“ að hefta störf fjölmiðla á Keflavíkurflugvelli þegar 15 hælisleitendum var vísað úr landi aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku. Við yfirferð á framkvæmd lögregluaðgerðarinnar kom hins vegar í ljós að tilmæli voru ekki nægilega skýr og harma bæði Isavia og embætti ríkislögreglustjóra að svo hafi verið.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra og Isavia.

Fulltrúar frá embætti ríkislögreglustjóra og Isavia funduðu í dag um aðgerðir lögreglu á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku. Í tilkynningu frá embættinu kemur fram að í aðgerðum sem slíkum hefur lögregla stjórn á framkvæmdum þeirra og að mikilvægt sé að gott og skýrt samstarf sé á milli hennar og starfsfólks flugvallarins.

Á fundinum var ákveðið að taka ferli og verklag í aðgerðum af þessu tagi til gagngerrar endurskoðunar til að fyrirbyggja óskýrleika á vettvangi. „Sú vinna mun hefjast nú þegar,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert