Hæstiréttur dæmdi í dag að enduruppteknu Milestone-máli, er lýtur að þætti Karls Emils Wernerssonar, eins fyrrverandi aðaleigenda fjárfestingafélagsins Milestone, og endurskoðendanna Sigurþórs Charles Guðmundssonar og Margrétar Guðjónsdóttur, skyldi vísað frá Hæstarétti.
Stendur þar með sýknudómur fjölskipaðs Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í desember 2014 sem Hæstiréttur sneri við í apríl 2016. Hlaut Karl þar þriggja og hálfs árs fangelsi en Sigurþór og Margrét níu mánaða skilorðsdóma.
Byggja endurupptökumálin á því að íslenska ríkið viðurkenndi að hafa brotið ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu á þremur framangreindu og gekk til sátta við þau í framhaldinu. Þannig greindi mbl.is frá í frétt 4. janúar á þessu ári:
Í sátt ríkisins og þremenninganna var meðal annars vísað til þess að Hæstiréttur hafi byggt niðurstöðu sína á endurmati réttarins á framburði ákærðu og vitna. Íslenska ríkið hafi viðurkennt að það endurmat hafi falið í sér brot gegn mannréttindasáttmála Evrópu með því að brjóta gegn reglunni um milliliðalausa málsmeðferð.
Í niðurstöðu endurupptökudóms segir meðal annars að í sáttinni hafi falist sömu sjónarmið og lágu fyrir í niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Styrmis Þórs Bragasonar sem fór með sambærilegt mál fyrir dómstólinn. Í því felist meðal annars að óumdeilt sé að Hæstiréttur hafi lagt nýtt og víðtækara mat á staðreyndir málsins á grundvelli endurrita og munnlegra skýrslna sem gefnar voru fyrir héraðsdómi. Því hafi verið „verulegir gallar“ á meðferð málsins fyrir Hæstarétti sem hafi haft áhrif á niðurstöðu þess. Er því fallist á beiðnirnar um endurupptöku málsins.
Í ljósi þess að auk ákærðu krafðist ákæruvaldið þess enn fremur að endurupptökumálinu yrði vísað frá féllst Hæstiréttur á það auk þess að vísa meðal annars í fyrri dóm mannréttindadómstólsins með svofelldum orðum:
„Til grundvallar endurupptöku máls þess sem síðar var leitt til lykta með dómi Hæstaréttar í máli nr. 7/2022 lá dómur Mannréttindadómstóls Evrópu 16. júlí 2019 í máli nr. 36292/14, C gegn Íslandi. Í þessu máli liggja fyrir sáttir milli ákærðu og íslenska ríkisins sem gerðar voru með vísan til fyrrgreinds dóms mannréttindadómstólsins. Að gættri kröfugerð ákæruvaldsins hér fyrir dómi verður í ljósi málsatvika og dóms Hæstaréttar í máli nr. 7/2022 að vísa málinu frá Hæstarétti.“
Í dómsorði segir enn fremur að allur sakarkostnaður málsins vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu.