Mótmælendur fóru inn á landssamráðsfund um aðgerðir gegn ofbeldi um fjögurleytið í dag, brutu sér leið upp á svið og hrópuðu: „Brottvísanir eru ofbeldi!“.
Fyrir aftan mótmælendurna og stóran borða sem þeir höfðu með sér sat forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari ásamt öðrum. Pallborðsumræður voru rétt í þann mund að hefjast.
Brottvísunum hælisleitenda og framkvæmd þeirra hefur verið mótmælt harðlega í kjölfar brottvísana sem framkvæmdar voru fyrir um viku síðan.
Lögregla fylgdi mótmælendunum niður af sviðinu og mátti heyra mótmælanda sem hrópaði í hljóðnema á svæðinu segja ítrekað: „Ekki snerta mig“. Að uppákomunni lokinni hélt málþingið áfram og ræddu þar ýmsir fulltrúar stjórnvalda um viðbrögð og úrræði vegna ofbeldis í samfélaginu.