Björn Þorfinnsson hefur sagt upp störfum sem ritstjóri DV. Hann hefur gegnt starfinu frá því í maí 2021 en þá tók hann við keflinu af Þorbjörgu Marinósdóttur.
Í samtali við mbl.is segir Björn uppsögnina ekki koma til vegna óánægju eða ósættis eða þeirra skipulagsbreytinga sem hafa átt sér stað innan útgáfufélagsins Torgs nýlega. Hann vilji einfaldlega prófa eitthvað nýtt.
„Þetta er algjörlega að mínu frumkvæði og það má eiginlega segja að ætli að prófa eitthvað nýtt þótt ég ætli ekkert endilega að segja skilið við fjölmiðla og ekkert endilega Torg. Þetta er frekar lýjandi starf til lengdar þótt það sé mjög skemmtilegt, en ég held að það sé engum hollt að gegna því of lengi,“ segir Björn sem segir þó ekki skilið við DV alveg strax.
„Þetta er gert í góðri sátt við forstjórann og yfirstjórnendur og ég er ekkert að hætta alveg strax. Ég verð jafnvel eitthvað fram á næsta ár, mun ljúka ákveðnum skipulagsbreytingum og vera þangað til arftaki finnst.“
Aðspurður hvort hann sé með eitthvað í sigtinu segir Björn ekki svo vera. „Fyrst um sinn ætla ég að vera heimateflandi húsfaðir,“ segir hann, enda sterkur skákmaður og fyrrverandi forseti skáksambands Íslands.
Í byrjun mánaðarins var Erlu Hlynsdóttur aðstoðarritstjóra DV sagt upp störfum og uppsögnin sögð vera hluti af skipulagsbreytingum, en staða hennar var lögð niður
Björn segir miðla Torgs vera að að þróast og það sé markmiðið með skipulagsbreytingum að styrkja það sem gengur vel og sleppa því sem gengur illa. „Það verða alveg örugglega frekari breytingar til góðs, eins og eru á öllum fjölmiðlum.“