Óljósar lýsingar um lýsingar

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, Helgi Valberg Jensson, Sigríður Björk Guðjónsdóttir og …
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, Helgi Valberg Jensson, Sigríður Björk Guðjónsdóttir og Gunnar Hörður Garðarsson á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki liggur endanlega fyrir hver tók ákvörðun um að beita ljósum til að torvelda störf fréttamanna og myndatökumanna við Keflavíkurflugvöll aðfararnótt 3. nóvember þegar hópur hælisleitenda var fluttur úr landi. Ríkislögreglustjóri segir að það hafi ekki verið gert að kröfu lögreglunnar, en hann vill bæta samskipti lögreglu og blaðamanna. 

Embætti ríkislögreglustjóra hefur farið yfir öll skráð samskipti lögreglunnar, bæði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Suðurnesjum í tengslum við aðgerðirnar og ekkert hefur komið fram sem sýnir fram á að slík skipun hafi verið gefin af hálfu lögreglunnar. Þá var tekið fram að engin tilraun hefði sömuleiðis verið gerð til að stöðva fréttaflutning í Hafnarfirði þar sem fréttamenn voru mættir við upphaf aðgerðanna, enda hefði lögreglan engar ástæður til þess. 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir vill bæta samskipti lögreglunnar og blaðamanna.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir vill bæta samskipti lögreglunnar og blaðamanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta kom fram á fundi sem Blaðamannafélag Íslands hélt með embætti ríkislögreglustjóra í dag, en Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sat þar fyrir svörum ásamt þeim Gunnari Herði Garðarssyni, samskiptastjóra embættisins, og Helga Valberg Jenssyni, yfirlögfræðingi embættisins, en Helgi kom m.a. að skipulagningu brottflutningsins og fylgdi hópnum með flugi til Grikklands. Fram kom fram að aðgerðirnar hefðu verið mjög krefjandi fyrir lögregluna og umfangsmiklar, eða ein sú stærsta sem lögreglan hefur þurft að sinna eftir Covid-faraldurinn.

Flutningur og sprengjuhótun

Greint var frá því að þegar hópurinn kom á flugvöllinn þá hefði augljóslega orðið misbrestur í samskiptum lögreglu og Isavia sem fyrr segir, en tekið var fram að á sama tíma hefði borist sprengjuhótun sem lögreglan og starfsfólk Isavia urðu að meta og bregðast við. Sú hótun reyndist þó ekki raunveruleg en hafði aftur á móti áhrif á starfsemina á vellinum á meðan að sögn lögreglu.

Þá kom fram, að samskiptastjóri ríkislögreglustjóra hefði sett sig samdægurs í samband við forsvarsmenn Isavia og spurt hvort og þá hvaða beiðni hefði komið frá lögreglunni um að beina ljósum að fjölmiðlum. Það var þó ekki fyrr en í gær sem það fékkst formlegur fundur með Isavia í gær til að fara yfir málið. Ekki hefur þó fengist staðfest hvort starfsfólk Isavia hafi mögulega gefið fyrirmæli um að nota ljósbúnaðinn eður ei. En að sama skapi kom fram að það væri ekki hægt að útiloka að lögregla á vettvangi hefði gefið slík fyrirmæli þrátt fyrir að að ekkert bendi til þess í skráðum samskiptum. Lögreglan og Isavia eru þó sammála því að þetta hefði ekki átt að gerast. 

Tilefni fundarins, sem var vel sóttur, var nýlegar aðgerðir þar …
Tilefni fundarins, sem var vel sóttur, var nýlegar aðgerðir þar sem blaðamenn voru hindraðir við störf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fundurinn, sem var vel sóttur, var einungis ætlaður starfandi blaðamönnum sem eru félagar í BÍ. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, var fundarstjóri og auk þess að ræða um atburðina 3. nóvember var einnig fjallað um almenn samskipti lögreglu við fjölmiðla en talsverð gagnrýni kom fram hjá blaðamönnum hve erfitt það væri að nálgast upplýsingar og svör hjá lögreglu. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi þess að bæta samskiptin í tengslum við málefni og störf lögreglunnar. 

Unnið að samskiptareglum

Á fundinum kom fram einnig fram, að embætti ríkislögreglustjóra vinni nú að gerð samskiptareglna fyrir öll lögregluembætti landsins, sem eru níu talsins með jafn marga lögreglustjóra. Þetta er unnið í samráði við embættin og er enn í vinnslu. Ríkislögreglustjóri hefur óskað eftir aðkomu BÍ að vinnunni áður en reglurnar taka formlegt gildi, en markmiðið er að samræma verklag lögregluembættanna við upplýsingagjöf og samskipti við fjölmiðla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert