Um hundrað manns komu saman í líkamsræktarstöðinni Afreki í kvöld til að fylgjast með Einari Hansberg Árnasyni sem var kominn á fimmtugustu klukkustund einnar samfelldrar æfingar.
Eins og mbl.is hefur fjallað um var ætlunin með aflraun Einars að vekja athygli á starfsemi Píeta-samtakanna á árstíma sem reynist mörgum erfiður. Kveikjan að þessu tiltekna átaki var fráfall móðurbróður hans sem af slysförum fyrir ári síðan, 56 ára gamall.
Síðasta æfingin var ekkert tilkomumeiri en hinar. Réttstöðulyfta, sextíu kíló, ellefu sinnum.
Þetta var æfingarlota númer tvöhundruð. Réttstöðulyfturnar voru þannig orðnar 2.200 talsins.
Eftir að hafa sleppt stönginni úr mittishæð sneri Einar að skaranum og fórnaði höndum. „Þetta er komið,“ mátti lesa út úr líkamstjáningu Einars.
Þegar hópurinn áttaði sig á því að aflrauninni var í raun lokið var símum sleppt og mikil fagnaðarlæti tóku við með tilheyrandi lófataki og upphrópunum. Skrautræmum rigndi yfir Einar og börn klædd bolum merktum Píeta-samtökunum hlupu að kappanum og föðmuðu hann.
Einar tók sér stutta stund í að kæsta mæðinni en steig því næst upp á svartmálaðan trékassa. Hann þakkaði öllum fyrir komuna í ræðu sem hann grínaðist með að hafa haft fimmtíu klukkustundir til að undirbúa:
„Það þarf ekki að grilla á sér líkamann í fimmtíu klukkutíma til að vera góð manneskja. Ég ákvað samt að gera það fyrir málefni sem skiptir máli,“ sagði Einar.
„Við erum ekki bara hér fyrir okkur sjálf heldur erum við hér fyrir aðra líka.“
Í tölu Einars snerti hann einnig á mikilvægi umburðarlyndis í garð náungans. Allir hafi sína byrði að bera, þó hún sé ekki alltaf sýnileg á yfirborðinu.
Benedikt Þór Guðmundsson, stofnandi Píetasamtakanna, fór næstur upp á pall og sagði frá þeim áhrifum sem framtak Einars hafi hafði haft.
„Það er ótrúlegt, við fundum það í nótt, gærkvöldi og í gærdag. Það er fólk að hringja og biðja um hjálp því það sá hann í tölvunni. Þannig að þú ert ekki bara að hjálpa með því að styrkja Píetasamtökin þú ert líka að hjálpa fólki þarna úti,“ sagði Benedikt á pallinum, sýnilega hrærður af þeim áhrifum sem Einar hafði haft með aflrauninni.
Bróðir Einars, Heimir Árnason, var til viðtals og sagði fólk jafnt og þétt hafa safnast saman í dag. Gaman hefði verið að ganga upp á ris og horfa yfir salinn í dag, þar sem varla sást í gólfið á tímabili.
Róðrarvél sú sem Einar hafði notað í ferlinu er sem stendur á uppboði og nýjasta tilboðið barst í dag. Hæsta boð stendur í 300.000 krónum en uppboðinu lýkur klukkan 18 á mánudag. Kaupverðið mun renna óskipt til Píetaösamtakanna.
„Það var einhver ofurhetja sem sat á henni. Þetta er sögulegt,“ segir Heimir.
Eftir fjölda faðmlaga með tárvotu stuðningsfólk náði blaðamaður mbl.is stuttlega tali af Einari.
„Ég finn bara ekki fyrir neinu en mér líður ágætlega. Adrenalín og kærleikur renna um blóðið,“ sagði Einar. „Maður svífur bara um húsið.“
Spurður hvort hann hafi gert ráð fyrir viðlíka mannfjölda á lokasprettinum svarar Einar því neitandi:
„Ég bjóst við viðbrögðum en, nei, ég bjóst ekki við því að sjá svona marga.“
Einar segir að nú taki samverustundir með fjölskyldunni við og jú, „einhver svefn“.
Píeta-síminn er opinn allan sólarhringinn:
552-2218
Reikningsnúmer samtakanna fyrir frjáls framlög:
0301-26-041041, Kt: 410416-0690
Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píeta-samtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.