Hafa dælt út vatni í átján tíma

Mikið hefur ringt á Siglufirði.
Mikið hefur ringt á Siglufirði. Ljósmynd/Síldarminjasafn Íslands

Aðfaranótt föstudags hóf vatn að flæða inn í eitt þeirra húsa sem hýsa sýningu Síldarminjasafnsins á Siglufirði. Að sögn safnstjóra hefur slökkviliðið á Siglufirði nú verið að störfum í átján klukkutíma við að dæla vatni út úr húsinu.

„Það er búið að rigna alveg gríðarlega mikið. Það stytti reyndar upp seint í gærkvöldi og hefur ekki rignt síðan. Þrátt fyrir það er ennþá mikið vatn og það er svo mikið vatn í jarðveginum að það er að koma upp um gólf,“ segir Aníta Elefsen, safnstjóri á Síldarminjasafninu á Siglufirði, í samtali við mbl.is.

Mikið vatn hefur safnast saman á lóð safnsins.
Mikið vatn hefur safnast saman á lóð safnsins. Ljósmynd/Síldarminjasafn Íslands

Lóðin eins og laug

Slökkviliðið á Siglufirði hefur verið með vatnsdælur í gangi inni í húsinu en einnig fyrir utan þar sem mikið vatn hefur safnast saman á lóð safnsins.

„Lóðin er búin að vera eins og laug sums staðar. Það er búið að vera mjög mikið vatnsmagn og vatnsagi á öllu safnsvæðinu utandyra. Blessunarlega hefur ekki flætt inn nema í eitt hús,“ segir Aníta.

Einungis hefur flætt inn í Njarðarskemmu, sem hýsir sýningu um síldarbræðslu.

Slökkviliðið hefur verið að störfum síðan í gær.
Slökkviliðið hefur verið að störfum síðan í gær. Ljósmynd/Síldarminjasafn Íslands

Tjónið óljóst

Ekki er búið að meta tjón safnsins en það verður gert eftir helgi. Aníta telur ljóst að eitthvert tjón hafi orðið á húsinu en óljóst hvort tjón sé á safngripum. Segir hún að öllum smærri safngripum hafi verið komið undan en sýningin hýsi mikið af iðnminjum sem verður ekki hreyft við nema með vinnuvélum.

Á þessum tíma árs er Síldarsafnið einungis opið þegar búið er að bóka fyrir fram. Aníta segir að þrátt fyrir stöðuna geti safnið enn tekið á móti gestum, þó verði ekki hægt að sjá sýninguna af síldarbræðslunni þar sem slökkviliðið sé enn að störfum í húsinu sem hýsir þá sýningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert