Hulda Elsa Björgvinsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er undrandi á bókun borgarfulltrúa í meirihluta borgarstjórnar þar sem gefið var í skyn að lögreglan fari á svig við lög í eftirliti sínu með notkun nagladekkja.
Á fundi í Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar síðasta fimmtudag lögðu fulltrúar þeirra flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórninni fram bókun. Athygli vakti að þar var ýjað að því að lögreglan fari á svig við lög.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar lögðu fram svohljóðandi bókun:
„Svifryksmengun veldur um 80 ótímabærum dauðsföllum á Íslandi á hverju ári samkvæmt Umhverfisstofnun Evrópu. Vitað er að nagladekk eiga verulegan þátt í þessari mengun. Talið er að nagladekk valdi 20 til 30 sinnum meiri svifryksmengun en venjuleg dekk. Auk þess skapast verulegur kostnaður vegna slits á malbiki. Nagladekkjanotkun hefur því miður aukist verulega síðustu árin. Ljóst er að mikil nagladekkjanotkun í Reykjavík hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þess vegna er óheppilegt að lögreglan lýsi því yfir hvað eftir annað að ekki verði sektað fyrir fyrir notkun nagladekkja áður en nagladekkjatímabilið hefst. Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort lögreglan hafi heimild til að fara á svig við lögin.“
Hulda Elsa segist ekki vita til þess að borgarfulltrúarnir hafi lagt sig eftir því að kynna sér þær reglur sem lögreglunni er gert að starfa eftir.
„Ég undrast þessa bókun borgarfulltrúa. Það hefði verið æskilegt að afla upplýsinga um það hvaða reglur gilda í þessu samhengi áður en sú ályktun er dregin að lögregla sé að fara á svig við lög,“ segir Hulda í samtali við mbl.is.
Almennt viðmið er að notkun nagladekkja sé óheimil frá 15. apríl til 31. október og þá sé hægt að sekta fyrir slíka notkun en málið er ekki alveg svo einfalt.
Hulda Elsa bendir á að refsiskilyrði fyrir því að sekta borgarana fyrir nagladekkjanotkun frá 15. apríl - 31. október séu ekki til staðar ef umferðaröryggi er ógnað vegna akstursaðstæðna. Lögreglunni sé því gert að taka tillit til veðurs og aðstæðna í eftirlitshlutverki sínu.
Hún vísar til 16. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja frá árinu 2004. Þar segir til að mynda:
Þegar snjór eða ísing er á vegi skal hafa snjókeðjur á hjólum eða eftir akstursaðstæðum annan búnað, t.d. grófmynstraða hjólbarða (vetrarmynstur), með og án nagla, sem veitt getur viðnám. Óheimilt er að nota keðjur þegar hætta er á að það valdi skemmdum á vegi.