Segja marga annmarka á sölunni

Guðmundur Björgvin Helgason gegnir embætti Ríkisendurskoðana.
Guðmundur Björgvin Helgason gegnir embætti Ríkisendurskoðana. Samsett mynd

Standa hefði þurft betur að undirbúningi og framkvæmd sölu á 22,5 prósenta eignarhlut í Íslandsbanka í mars, að mati Ríkisendurskoðunar. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.

Samkvæmt skýrslunni, sem lögð var fyrir Alþingi í dag og lak í kjölfarið í fjölmiðla, voru annmarkar sölunnar margir, eftirspurn vanmetin við ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð og skýra hefði mátt betur hæfi fjárfesta. Skýrslan er sögð telja 71 blaðsíðu.

Skýrslan verður lögð fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á morgun og verður í kjölfarið gerð opinber.

Meginmarkmið „á reiki“

Þá hafi meginmarkmið sölunnar verið „á reiki“ auk þess sem bankasýslan hafi verið háð utanaðkomandi ráðgjöf og þekkingu sökum takmarkaðrar reynslu sýslunnar af tilboðsfyrirkomulagi.

Að mati Ríkisendurskoðunar er þó ekki dregið í efa að sala bankans hafi verið ríkissjóði almennt hagfelld. Þó sé ekki hægt að fullyrða að salan hafi verið eins hagkvæm og hægt var.

Samkvæmt Vísi, sem kveðst hafa skýrsluna undir höndunum, segir í skýrslunni að upplýsa hefði með afdráttarlausum hætti hvað fólst í settum skilyrðum um „hæfa fjárfesta“ sem voru þeir sem gátu tekið þátt í útboðinu.

Með því að notast við hugtökin „hæfir fjárfestar“ eða „hæfir fagfjárfestar“ varð hætta á að nefndarmenn sem fjölluðu um málið, og aðrir sem vildu kynna sér áform um söluferlið, stæðu í þeirri trú að þar væri eingöngu um að ræða fjárfesta sem hafa að aðalstarfi að fjárfesta í fjármálagerningum. Sú upplýsingagjöf hefði þó verið þeim takmörkunum háð að þátttaka lítilla einkafjárfesta í söluferlinu kom Bankasýslunni á óvart.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert