„Þessi tvö undanfarin ár hafa verið ævintýri líkust. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir viðtökurnar,“ segir Skapti Hallgrímsson, ritstjóri frétta- og mannlífsvefsins Akureyri.net.
Á morgun, sunnudag, [í dag] verða tvö ár frá því Skapti birti fyrstu fréttina á vefnum, en hann fór í loftið 13. nóvember 2020. Frá upphafi hefur sjónum verið beint að Akureyri og næsta nágrenni.
Á þessum tveimur árum hafa birst tæplega átta fréttir og greinar á hverjum einasta degi að meðaltali, sem teljast verður vel af sér vikið því nánast einn maður stendur á bak við öll skrif. Á vefnum má finna almennar fréttir úr bæjarfélaginu, mikið er fjallað um íþróttir, menningu og mannlíf, þar eru birtir pistlar, aðsendar greinar og minningargreinar auk þess sem áhersla er á góðar ljósmyndir.
„Mér finnst samfélagið hér eiga skilið öflugan, vandaðan og skemmtilegan fjölmiðil og því er einkar ánægjulegt að Akureyringar og aðrir áhugamenn um þennan fallega og góða bæ skuli vera mér sammála,“ segir Skapti sem er ánægður með góðar viðtökur.
Nánar er rætt við Skapta í laugardagsblaði Morgunblaðsins.