Aðstoðarmaður Bjarna segir rangt með mál farið

Frá Kastljósi í kvöld.
Frá Kastljósi í kvöld. Samsett mynd

Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, segir það rangt að hann hafi gert það að forsendu að Bjarni yrði einn í viðtali í Kastljósi í kvöld.

Vísar hann til fullyrðingar Sigríðar Daggar Auðunsdóttur fréttamanns í viðtali við Bjarna í Kastljósinu. Sig­ríður Dögg Auðuns­dótt­ir sagði þar að lagt hefði verið upp með að Bjarni mætti Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar. Aðstoðarmaður Bjarna hefði hins veg­ar haft sam­band og sett það sem for­sendu að Bjarni yrði einn í viðtali.

„Ég og Sigríður Dögg vorum í reglulegum samskiptum í dag, frá því að Bjarni samþykkti strax í morgun beiðni um að mæta til hennar í Kastljós. Síðdegis töluðum við saman um fyrirkomulag þáttarins, sem yrði þannig að Bjarni kæmi í settið til Sigríðar Daggar og svaraði spurningum hennar um skýrslu Ríkisendurskoðunar,“ skrifar Hersir á Facebook.

„Þá höfðum við þegar verið í nokkrum samskiptum, m.a. í því skyni að ég reyndi að koma RÚV í samband við Bankasýslu ríkisins – en hún vildi líka fá fulltrúa hennar í þáttinn.“

Annað fyrirkomulag en ákveðið væri

Að sögn Hersis fékk hann símtal frá Sigríði Dögg þegar nær dró þættinum þar sem honum var kynnt um breytt fyrirkomulag. Bjarni myndi mæta með stjórnarandstæðingum í þáttinn.

„Ég benti á að það væri annað en ákveðið hefði verið skömmu áður og eðlilegt að fyrirkomulagið stæði óbreytt. Það væri ekki sérstakt hagsmunamál fyrir okkur að mæta í þáttinn yfir höfuð. Við hefðum þegar verið í sjónvarpsviðtali við kvöldfréttir RÚV, ásamt fjölda annarra miðla, og ættum auk þess boð í fréttasett RÚV í beinni. Úr varð hins vegar að halda óbreyttu fyrirkomulagi.“

Í framhaldinu birti Kristrún Frostadóttir færslu þar sem hún sagði Bjarna ekki þora að mæta sér.

„Flestir sem fylgjast með fréttum og þingumræðum sjá eflaust að Bjarni hefur „þorað“ að mæta stjórnarandstöðunni hvar sem þess þarf, hvort sem er í þingsal, sjónvarpssal eða sölum þingnefnda,“ segir Hersir um það.

„Mér skilst að hann ætli meira að segja að tala í sig kjark og vera með stjórnarandstöðunni í sérstakri umræðu á Alþingi um skýrslu Ríkisendurskoðunar allan daginn á morgun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert