Bankasýslan afar háð utanaðkomandi ráðgjöf

Íslandsbanki.
Íslandsbanki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hugtakanotkun og upplýsingagjöf í þeim gögnum sem Bankasýslan og fjármála- og efnahagsráðuneyti lögðu fyrir Alþingi voru ekki til þess fallin að draga upp skýra mynd af
tilhögun söluferlisins.

Þrátt fyrir reynslu og þekkingu starfsmanna og stjórnar Bankasýslunnar á sviði umsýslu og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum bjó stofnunin ekki yfir reynslu af tilboðsfyrirkomulagi í aðdraganda sölunnar. Stofnunin var í söluferlinu öllu afar háð utanaðkomandi ráðgjöf og þekkingu.

Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar á sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka í vor. Skýrslan var birt á vef stofnunarinnar í morgun fyrr en til stóð þar sem skýrslan hafði lekið og verið í umfjöllun þriggja fjölmiðla frá því í gær. 

Eftirspurn vanmetin 

Þá er það niðurstaða skýrslunnar að ekki hafi verið gerðar tilhlýðilegar kröfur til umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila og vegna annmarka á framkvæmdinni var eftirspurn vanmetin við ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð.

„Þá var hvorki tekið nægjanlegt tillit til mögulegrar orðsporsáhættu né gætt eins vel og mögulegt var að meginreglum um gagnsæi og hlutlægni. Eins og tilboðsfyrirkomulagið var afmarkað og útfært gat það ekki tryggt fullt jafnræði þeirra fjárfesta sem því var beint að.“

Hægt að selja allt á 122 krónur á hlut

Greining Ríkisendurskoðunar á tilboðabók söluferlisins sýnir að tilboð fjárfesta á sölugenginu 117 krónur á hlut námu 282% af framboði hlutabréfa í sölunni. Tilboð bárust í allan eignarhlutinn á dagslokagengi bankans á söludegi, 122 krónur á hlut, eða hærra.

Um var að ræða tilboð í 540 milljónir hluta eða 120% af endanlegu framboði. Hæsta tilboð sem barst var á genginu 124,1 króna á hlut en lægsta á 110,2 krónur. Tilboð á genginu 118 krónur á hlut eða hærra námu 882 milljónum hluta, rétt tæplega tvöfaldri stærð eignarhlutarins sem seldur var.

Forsendur verðsins stóðust ekki

Skýr merki eru um að endanlegt söluverð hafi fyrst og fremst ráðist af eftirspurn erlendra fjárfesta. Ráðgjafar Bankasýslunnar töldu óráðlegt að leiðbeinandi lokaverð, sem gefið var út
skömmu áður en sölu lauk, yrði hærra en 117 krónur á hlut af ótta við að erlendir fjárfestar féllu frá þátttöku.

Þeir töldu jafnframt að frekari hækkun gæti haft neikvæð áhrif á þróun hlutabréfaverðs bankans að sölu lokinni. Í samræmi við þá ráðgjöf tók Bankasýslan ákvörðun um að leggja til við fjármála- og efnahagsráðherra að eignarhluturinn skyldi seldur á 117 krónur á hlut.

Ekkert í kynningargögnum Bankasýslunnar eða fjármála- og efnahagsráðuneytis í aðdraganda sölunnar gaf til kynna að aðkoma erlendra fjárfesta að kaupunum myndi hafa slíkt vægi við ákvörðun um endanlegt söluverð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert