Boða til íbúafundar vegna mikillar úrkomu

Boðað hefur verið til íbúafundar á Seyðisfirði. Mynd úr safni.
Boðað hefur verið til íbúafundar á Seyðisfirði. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Næsta sólarhring er spáð rigningu eða súld á Austurlandi en víða er hætt á skúrum með meiri úrkomuákefð.

Langmestri ákefð er spáð á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum en ekki hafa borist tilkynningar um skriður eða jarðvegshreyfingar. Víða eru vatnavextir í ám og lækjum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Fylgst með hreyfingu á Búðarhrygg

Þá segir að fylgst sé með hreyfingu í Neðri-Botnum á Seyðisfirði en hreyfing varð á Búðarhrygg á föstudag sem virðist hafa stöðvast. Það er sami hryggur og var á hreyfingu síðasta haust.

Hreyfingin nú var lítil, 5-15 mm, en í fyrra hreyfðist hann um meira en metra á nokkrum vikum. Einnig sáust merki um hreyfingu í Þófa í ratsjármælingum en hún var minni en í hryggnum við Búðará.

Hreyfingin sem sást fyrir helgi er lítil og hefur stöðvast eða minnkað. Hún er mun minni og hægari en hreyfingin sem varð á hryggnum við Búðará í fyrra og gefur ekki tilefni til aðgerða.

Viðbúið er að grunnvatnsstaða haldist áfram há í vætutíðinni sem er fram undan og fylgjast þarf með aðstæðum þó að úrkoma verði ekki mikil næstu daga.

Haldinn á morgun

Íbúafundur verður á vegum Múlaþings með íbúum Seyðisfjarðar á morgun kl. 16.30 vegna úrkomunnar, að sögn lögreglunnar á Austfjörðum.

„Veðurstofan mun halda framsögu, fara yfir úrkomuspá næstu daga, kynna vöktun sem er í hlíðum og svara spurningum íbúa. Á fundinum verða einnig fulltrúar almannavarnadeildar RLS og lögreglu.“

Íbúar eru hvattir til að mæta á fundinn, sem sagður er verða haldinn á forritinu Teams. Hægt verði að komast inn á fundinn með því að fara inn á vefsíðu Múlaþings, mulathing.is.

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert